Því miður er það svo að líklega mun græðgin á endanum fara með kapítalismann – sem þó er í sinni milduðu útgáfu eftirstríðsráranna besta þjóðfélagskerfi sem hefur verið til á jörðinni.
En svonefndur túrbókapítalismi er farinn svo úr böndunum að meira að segja hörðustu hægrimenn treysta sér ekki til að verja hann lengur.
Ríkidæmi fámennrar yfirstéttar heldur áfram að vaxa hröðum skrefum eins og hefur verið frá tíma Reagans og Thatcher, en millistéttin nær ekki að halda í við þetta lengur. Hún reyndi það með því að skuldsetja sig til andskotans, en það gengur ekki til langframa.
Þrátt fyrir áföll undanfarinna ára gengur ekkert að hemja völd banka og stórfyrirtækja. Óbilgirnin fer fremur vaxandi en hitt. Sú tilfinning ágerist líka að peningaöflin eigi stjórnmálamenn með húð og hári. Slíkt þjóðfélagskerfi kallast plútókratí – eða auðræði.
Vitaskuld getur slíkt kerfi gengið af sjálfu sér dauðu. Græðgin getur orðið of mikil. Yfirstéttinni hefur lengi verið ákveðin vörn í því að millistéttin deilir að hluta til gildismati hennar. Millistéttin virkar eins og stuðpúði. En það getur breyst ef of harkalega er gengið á kjör millistéttarinnar, möguleika hennar til að eignast húsnæði, koma börnum sínum áfram í lífinu og njóta félagslegs öryggis.
Ég skrifaði um daginn um svokallaða núllsamninga sem eru að verða mjög útbreiddir í bresku atvinnulífi. Þeir þýða að starfsfólk hefur enga tryggingu fyrir því að fá yfirleitt að vinna – það er kallað í það með litlum fyrirvara og svo er hægt að senda það tafarlaust heim.
Hér erum við komin langt aftur, aftur fyrir tíma verkalýðsbaráttu sem tryggði almenningi réttindi sem hafa þótt sjálfsögð. Ég nefndi í umræðum að núllsamningarnir minntu helst á tímann þegar verkamenn komu niður á höfn til að snapa vinnu, sumir fengu að vinna einhverja tíma, aðrir fóru niðurlútir heim.
Ég sé að dálkahöfundinum Seumas Milne hefur dottið það sama í hug í Guardian. Hann líkir einmitt núllsamningunum, sem tíðkast bæði í Buckinghamhöll og á McDonalds, við biðraðir hafnarverkamanna forðum tíð.