Tveir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa undanfarna daga hvatt til aðgerða vegna skuldavanda heimilanna.
Illugi Gunnarsson reið á vaðið fyrir helgi og sagði að þyrfti að meta greiðsluþol íslenskra heimila og laga skuldastöðuna að því. Það væri ekki til neins að halda fólki í heljargreipum. Illugi hvatti til þjóðarsáttar um þessi mál.
Í dag skrifar Kristján Þór Júlíusson grein þar sem segir meðal annars:
„Frá því í október 2008 hefur verðtryggingin fengið að herja óáreitt á skuldsett heimili landsins. Verðbólga frá ársbyrjun 2008 er nálega 40 prósent og lánþegar þessa lands hafa mátt horfa á lánin sín hækka um þá upphæð auk hárra vaxta….Þeir fjármunir hafa runnið í hirslur fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Með nokkrum sanni má segja að þetta fyrirkomulag hafi hneppt stóran hluta þjóðarinnar á besta aldursskeiði, 25-40 ára, í skuldaþrælkun og stuðlað að stórfelldum flutningi á eignum frá einum þjóðfélagshópi til annars.“
Skyldi þarna vera grundvöllur að víðtækri sátt um þessi mál? Það virðist altént ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er bjóða upp á einhvers konar aðgerðir gegn þessum vanda – raunar er þetta í anda þess sem var samþykkt á landsfundi flokksins – og það hlýtur að valda núverandi stjórnarflokkum miklum heilabrotum. Þetta er líklega það einstaka mál sem mestu veldur um óvinsældir ríkisstjórnarinnar og það verður ekki þægilegt að fara með það óklárað í kosningar.
Kristján talar um gríðarlega tilfærslu á fjármagni síðustu árin. Í dag er viðkvæði stjórnenda lífeyrissjóða að þeir hafi ekki tapað svo miklu miðað við það sem gengur og gerist í Evrópu. En það skyldi þó ekki vera svo að hrun krónunnar, verðbólgan og verðtryggingin hafi einmitt lagað stöðu sjóðanna þannig að tapið er síður sýnilegt?