Sagður samvinnufús við lögreglu – Vill ekki vera framseldur til Frakklands
Salah Abdeslam, sem lögreglan í Belgíu handtók í gær, hefur verið ákærður fyrir aðild að hryðjuverkunum í París. Lögmaður Abdeslam segir hann vera samvinnufús við lögreglu.
Frá þessu er greint á vef BBC. Þar segir að Abdeslam berjist nú gegn því að vera framseldur til Frakklands, en hann er franskur ríkisborgari.
Abdeslam var fjóra mánuði á flótta undan lögreglu þar til að hann var handtekinn í umfangsmikilli aðgerð lögreglunnar í gær.
Alls létust 130 manns og tugir særðust í hryðjuverkaárásunum sem áttu sér stað í París í nóvember á síðasta ári. Í árásunum, sem hryðjuverkasamtökin ISIS báru ábyrgð á, notuðu hryðjuverkamenn bæði skotvopn og sprengjur.
Ekki er ljóst hvert hlutverk Abdeslam var í hryðjuverkunum en rannsakendur vonast til að hann geti gefið upplýsingar um tengslanet ISIS, fjármögnun og frekari áætlanir.
Alþjóðalögreglan Interpol hefur hvatt stjórnvöld í Belgíu og Frakklandi til að auka eftirlit við landamæri sín, þar sem talið er að aðrir vitorðsmenn hryðjuverkanna reyni að flýja Evrópu.