fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024

Listir og skemmdarverk

Listaverkin sem skemmdarvargar elska að hata

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 5. febrúar 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku var málverkið „Can I Be Here With You“ eftir Hallgrím Helgason eyðilagt af óprúttnum aðila vopnuðum hníf. Verkið, sem sýnir hliðarsjálf Hallgríms Grimm reyna að vingast við aðra gesti á biðstofu flugvallar, var í eigu Listasafns Háskóla Íslands og hékk á vegg í Odda í Háskóla Íslands. Skemmdarvargurinn skar verkið og hafði stóra hluta þess á brott með sér. Þetta er fyrsta skemmdarverkið í sögu safnsins, en það hefur verið starfandi og sýnt myndir á göngum skólans í 35 ár. Listaverk hafa þó oftar en einu sinni verið viðfangsefni skemmdarvarga. DV rifjar upp nokkur meistaraverk sem hafa lent illa í því.

Þrisvar ráðist á Rembrandt

Þrisvar sinnum hefur verið gerð tilraun til að eyðileggja listaverkið Næturvaktin (h. De Nachtwacht) eftir hollenska meistarann Rembrandt van Rijn (1606–1669). Árið 1911 réðst fyrrverandi flotaliðsforingi á myndina með hníf en náði ekki að skera í gegnum lakkhúðina. Árið 1975 réðst atvinnulaus barnaskólakennari á verkið með hníf og skildi eftir marga djúpa skurði í striganum. Kvaðst hann hafa fengið fyrirmæli um að framkvæma árásina frá Jesú Krist. Verkið var lagað en ummerkin voru þó enn sýnileg. Aðeins fimmtán árum síðar varð málverkið enn einu sinni fyrir árás. Þá var það maður sem hafði flúið af geðsjúkrahúsi sem spreyjaði það með brennisteinssýru. Öryggisvörðum safnsins tókst þó að bregðast hratt við og skola sýruna af svo hún komst ekki í gegnum lakkið.

Eftir nokkrar tilraunir til skemmdarverka var Mona Lisa sett í skothelt box um miðja síðustu öld.
Í skotheldu boxi Eftir nokkrar tilraunir til skemmdarverka var Mona Lisa sett í skothelt box um miðja síðustu öld.

Skotheld Mona Lisa

Áður en skothelt gler var sett utan um frægasta málverk listasögunnar hafði verið gerð tilraun til að eyðileggja Monu Lisu eftir Leonardo Da Vinci (1452–1519). Árið 1956 var sýru kastað á verkið, sama ár kastaði maður steini í átt að myndinni og lenti hann á vinstri olnboga myndarinnar og þurfti að lagfæra myndina umtalsvert.

Í kjölfarið var settur hlífðarskjöldur utan um myndina, en þrátt fyrir það reyndi fólk hvað það gat til að eyðileggja þennan gimstein. Árið 1974, þegar myndin var í láni á listasafni í Tókýó í Japan, kastaði fötluð kona rauðri málningu á skjöldinn til að mótmæla slæmu aðgengi fatlaðs fólks að safninu. Árið 2009 kastaði svo rússnesk kona keramíkvasa, sem hún hafði keypt í safnbúð Louvre, í átt að myndinni.

Feminískt skemmdarverk

Mary Richardson réðst á Rokeby Venus eftir Velasquez til að mótmæla handtöku kvenréttindakonunnar Emmeline Pankhurst.
Venus rist á hol Mary Richardson réðst á Rokeby Venus eftir Velasquez til að mótmæla handtöku kvenréttindakonunnar Emmeline Pankhurst.

Árið 1914 réðst súffragettan Mary Richardson með kjöthníf á Rokeby Venus eftir spænska málarann Diego Velazquez (1599–1660) þar sem myndin var til sýnis í National Gallery í London. Richardson náði að rista myndina sjö sinnum, en myndin þurfti umtalsverðar lagfæringar í kjölfarið.

Tilgangur árásarinnar var að mótmæla handtöku Emmeline Pankhurst, leiðtoga súffragettnanna, sem börðust fyrir kosningarétti kvenna í Bretlandi, fyrr um daginn. „Ég reyndi að eyðileggja mynd af fallegustu konu í sögu goðsagnanna til að mótmæla því að ríkisstjórnin skyldi eyðilegga frú Pankhurst, sem er fallegasta kvenpersóna í samtímasögunni,“ sagði Richardson í yfirlýsingu í kjölfarið.

Litla hafmeyjan eftir Edvard Eriksen hefur tvisvar verið afhöfðuð og einu sinni sprengd af stöplinum.
Hauslaus hafmeyja Litla hafmeyjan eftir Edvard Eriksen hefur tvisvar verið afhöfðuð og einu sinni sprengd af stöplinum.

Sprengdar hafmeyjur

Stytta Edvards Eriksen af litlu hafmeyjunni úr ævintýri H.C. Andersen hefur verið eitt af einkennismerkjum og einn helsti ferðamannastaður Kaupmannahafnar frá því að hún var sett upp árið 1913. Hún hefur ítrekað orðið fyrir árásum í gegnum tíðina og hefur verið rætt um að færa hana lengra frá ströndinni til að gera áhugasömum skemmdarvörgum erfiðara fyrir. Hafmeyjan hefur tvisvar verið afhöfðuð, fyrst árið 1964 og aftur 1998 (með einni misheppnaðri tilraun árið 1990). Árið 1984 var önnur höndin tekin af og árið 2003 var styttan í heild sinni sprengd af stallinum.

Okkar eigin reykvíska hafmeyja hlaut sömu örlög. En stytta Nínu Sæmundsdóttur af hafmeyju sem stóð í Reykjavíkurtjörn var sprengd í loft upp á nýársnótt 1960 og er það mál enn óupplýst.

Mynd: Reuters

Gulhyggjan gegn Rothko

Pólskur listamaður lenti í tveggja ára fangelsi eftir að hafa krotað á málverk eftir Mark Rothko.
Ráðist á Rothko Pólskur listamaður lenti í tveggja ára fangelsi eftir að hafa krotað á málverk eftir Mark Rothko.

Pólski listamaðurinn Vladimir Umanets komst í heimsfréttirnar árið 2012 þegar hann krotaði á málverk eftir bandaríska málarann Mark Rothko (1903–1970), þar sem það var til sýnis á Tate-nútímalistasafninu í London. Málverk eftir Rothko eru einhver þau verðmætustu í heiminum í dag og er umrætt verk, Black on Maroon, metið á rúman milljarð króna. Skemmdarverkið átti að vera listgjörningur og kynning á listhreyfingunni „yellowism“ – sem gæti útlaggst gulhyggja á íslensku – sem Umanets var í forsvari fyrir. Skemmdarvargurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi og sat inni í eitt og hálft ár fyrir gjörninginn.

Verk Rothkos eru oft og tíðum máluð með mörgum mismunandi efnum, svo sem olíumálningu, trjákvoðu, lími, þurrum litarefnum og eggjum. Því fólst mikil vinna í því að finna hvernig væri hægt að ná blekinu af án þess að skemma verkið sjálft. Þrír listverndunarsérfræðingar og vísindamenn eyddu níu mánuðum í að rannsaka og prófa um 80 leysiefni, sex mánuðum í að ná blekinu af og þremur mánuðum í að ganga frá viðgerðunum. Það tók því um eitt og hálft ár að laga málverkið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Elvar segir frá sögu sem hann heyrði um Adam Ægi á knæpu í Reykjavík

Elvar segir frá sögu sem hann heyrði um Adam Ægi á knæpu í Reykjavík
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Öflugur framherji sterklega orðaður við Arsenal eftir að þessi mynd birtist

Öflugur framherji sterklega orðaður við Arsenal eftir að þessi mynd birtist
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Uppnám í breska Íhaldsflokknum – Þingmaður genginn í Verkamannaflokkinn sem hann segir verða að komast til valda til að bjarga heilbrigðiskerfinu

Uppnám í breska Íhaldsflokknum – Þingmaður genginn í Verkamannaflokkinn sem hann segir verða að komast til valda til að bjarga heilbrigðiskerfinu
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gary Neville telur að þetta sé stærsta vandamál Chelsea

Gary Neville telur að þetta sé stærsta vandamál Chelsea
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Baldur gefur lítið fyrir gamla skemmtistaðamynd sem hefur farið í mikla dreifingu – „Hólí mólí Baldur, hvernig vogarðu þér?“

Baldur gefur lítið fyrir gamla skemmtistaðamynd sem hefur farið í mikla dreifingu – „Hólí mólí Baldur, hvernig vogarðu þér?“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Ljóst að Sanchez söðlar um í sumar

Ljóst að Sanchez söðlar um í sumar
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ókvæðisorðum stöðugt hreytt í Greenwood – „Ég er viss um að köllin hafi áhrif á hann“

Ókvæðisorðum stöðugt hreytt í Greenwood – „Ég er viss um að köllin hafi áhrif á hann“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Lögreglan sögð brjóta reglur um einkennismerki – Merki sérsveitarinnar eigi sér enga stoð

Lögreglan sögð brjóta reglur um einkennismerki – Merki sérsveitarinnar eigi sér enga stoð