fbpx
Laugardagur 11.maí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Hagstofan bjargar hagvextinum og rotar verðbólguna

Svarthöfði
Föstudaginn 9. febrúar 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hnaut um það í vikunni að Hagstofan ætlar að kynna nýja talningaraðferð fyrir mannfjölda á Íslandi í næsta mánuði. Samkvæmt nýju aðferðinni eru landsmenn víst 14 þúsund færri en Hagstofan hefur hingað talið okkur trú um. Hagstofan virðist með öðrum orðum ekki hafa kunnað að telja fram til þessa og hyggst endurskoða mannfjölda í landinu 11 ár aftur í tímann.

Þá vakti það athygli Svarthöfða á dögunum að Hagstofan tilkynnti að hún ætli loksins að fara að reikna greidda húsaleigu inn í húsnæðislið vísitölu neysluverðs í stað hinnar svokölluðu reiknuðu húsaleigu sem ku vera ábyrg fyrir lunganum af hækkun vísitölunnar síðasta áratuginn hið minnsta. Ekkert var minnst á að til stæði vísitölu neysluverðs neitt aftur í tímann sem er miður fyrir skuldara landsins vegna þess að greidda húsaleigan hefur hækkað miklu minna síðasta áratuginn en sú reiknaða. Endurreiknuð vísitala neysluverðs eftir réttri formúlu yrði sannkallaður hvalreki fyrir skuldug heimili landsins.

Vitaskuld er það mjög bagalegt að Hagstofan virðist hafa þann leiða ávana að reikna vitlaust. Er þó mjög vel búið að starfsfólki hennar, sem sést hvað best á því að eftir að nýr hagstofustjóri tók við starfi fyrir tæpum tveimur árum hefur Hagstofan, ein opinberra stofnana, tekið upp á því að gefa starfsfólkinu frí milli jóla og nýárs. Eitthvað hafa fjármálaráðherrar fjargviðrast út af því vegna þess að það ku ekki vera leyfilegt.

Ekki er samt við því að búast að fjármálaráðherra, núverandi eða fyrrverandi, geri athugasemdir við það að Hagstofan endurskoði nú mannfjöldann til lækkunar allt aftur til 2013, árið sem Bjarni Benediktsson tók fyrst við embætti fjármálaráðherra, og byrji að nota nýja neysluvísitölu sem mælir ekki hækkanir á húsnæðisverði eins og sú gamla.

Ríkisstjórnin hefur nefnilega átt í mesta basli. Hagvöxtur á hvern mann hér á landi hefur verið með því minnsta sem þekkist innan OECD undanfarin ár og stefndi í mínus á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur staðið ráðþrota frammi fyrir þessu vandamáli.

Nú hefur Hagstofan stigið inn og bjargað málinu. Með því að fækka einfaldlega landsmönnum um 14 þúsund hækkar hagvöxtur á hvern mann sem því nemur. Kannski hann verði bara jákvæður á þessu ári eftir allt saman.

Svarthöfði sér í hendi sér að með því að fækka landsmönnum 11 ár eftir í tímann, allt aftur til valdatöku Bjarna Ben í fjármálaráðuneytinu, snarbatnar hagstjórn hans yfir allt þetta tímabil.

Þá hafa bæði ríkisstjórn og Seðlabankinn verið í mesta basli með verðbólguna og í raun ekkert við hana ráðið. Aftur kemur Hagstofan með hjálparhönd. Hún lækkar einfaldlega verðbólguna með því að breyta reikniaðferðinni. Svarthöfði hugsar aftur til munnlegs stúdentsprófs í stærðfræði fyrir margt löngu og nagar sig nú í handarbökin fyrir að hafa ekki látið sér detta í hug að benda prófdómaranum á að svar hans var ekki vitlaust – hann hafi einfaldlega verið að beita nýrri reikniaðferð sem gefi aðrar niðurstöður. Svona er að vera vitur eftir á.

Svarthöfði býst nú við þingkosningum í haust. Þegar hagvöxturinn er kominn á fullt blúss og verðbólgan komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans, allt í boði nýrrar aðferðafræði Hagstofunnar, er upplagt fyrir ríkisstjórnarflokkana að sækja endurnýjað umboð til hamingjusamra og velmegandi kjósenda.

Svarthöfði reiknar með því að starfsmenn Hagstofunnar fái frí alla dymbilvikuna í ár og að eftir næstu jól komi þeir aftur til starfa um svipað leyti og þingmenn, svona um 20. janúar. Svo sannarlega hafa þeir unnið fyrir fríinu. Og auðvitað fá þeir góða bónusa að auki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?
EyjanFastir pennar
31.03.2024

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns