Sky Sports fær á baukinn fyrir mistök í beinni útsendingu í gær. Eftir mjög óvænt tap gegn Middlesbrough í fyrri leiknum í undanúrslitum enska deildarbikarsins, þá bauð liðið upp á sýningu á Stamford Bridge í gær.
Boro varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fimmtán mínútna leik en Enzo Fernandez, Axel Disasi og Cole Palmer bættu við mörkum áður en fyrri hálfleikur var á enda. Palmer skoraði einnig fimmta mark leiksins áður en Noni Madueke bætti við sjötta markinu og þar við sat hjá Chelsea en Morgan Rogers lagaði stöðuna fyrir gestina í lokin. 6-1 sigur staðreynd.
Chelsea vann því samanlagt 6-2 sigur og er komið með farmiða á Wembley í næsta mánuði. Það kemur í ljós í kvöld hvort það verði Fulham eða Liverpool sem mæta þeim í úrslitum en Liverpool er í góðri stöðu fyrir seinni leikinn.
Eftir leik var Disasi mættur í viðtal til að ræða um leikinn en Sky Sports kynnit að Noni Madueke væri mættur í viðtal. Báðir eru þeldökkir en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sky Sports gerir þessi sömu mistök.