Í nýrri rannsókn, sem hefur verið birt í vísindaritinu Journal of Geophysical Research: Solid Earth, kemur fram að í Norður-Ameríku séu enn hugsanlega eftirskjálftar eftir sterka skjálfta sem riðu yfir fyrir rúmlega 200 árum.
Eftirskjálftar eru venjulega litlir skjálftar sem fylgja í kjölfar stórra skjálfta þegar flekaskil jafna sig. Eftirskjálftar ríða venjulega yfir nokkrum dögum eða árum eftir stóra skjálftann en sumir vísindamenn telja að þeir geti átt sér stað öldum saman.
Í nýju rannsókninni skoðuðu vísindamenn uppruna jarðskjálfta í svokölluðum stöðugum hluta Norður-Ameríku en það eru mið- og austurhlutar Bandaríkjanna og hluti af austurhluta Kanada. Jarðskjálftar eru sjaldgæfir á þessu svæði því það er fjarri plötuskilum.
Öflugir skjálftar riðu yfir á landamærum Missouri og Kentucky 1811 og 1812 og 1886 reið Charleston jarðskjálftinn yfir Suður-Karólínu. Telja vísindamennirnir að skjálftar, sem séu eftirskjálftar eftir þessa skjálfta, ríði enn yfir.