fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Fordæma stjórnvöld og krefjast þess að nafngreindum starfsmanni barnaverndar sé gert að víkja – „Ítrekað gerist brotlegt í starfi, jafnvel áratugum saman“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. nóvember 2023 21:21

Barnaverndarnefnd, Höfðatorg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Baráttusamtökin Líf án ofbeldi hafa blásið til undirskriftasöfnunar til að fordæma framgöngu hins opinbera í garð Eddu Bjarkar Arnardóttur sem í gær var handtekin á grundvelli framsalsbeiðni frá Noregi.

Edda hefur verið sökuð um að nema syni sína þrjá á brott, frá forsjáraðila þeirra og flytja þá frá Noregi yfir til Íslands. Edda Björk hefur gengist við því að hafa numið drengina á brott, en það hafi verið með vilja drengjanna sem kæri sig ekki um að búa í Noregi. Báðir foreldrar drengjanna eru íslensk og býr bakland beggja á Íslandi. Drengirnir hafa lýst eindregnum vilja til að dvelja á Íslandi, en þeir eiga hér tvær alsystur og eldri hálfsystkin.

Sýslumaður reyndi að taka drengina úr umsjá Eddu með beinni aðför nýlega sem var harðlega gagnrýnd út af aðkomu einkennisklæddra lögreglumanna og hörkulegri framgöngu.

Eins og segir þá var Edda Björk handtekin og stendur til að framselja hana til Noregs. Ekki hefur tekist að hafa uppi á drengjunum en lögmaður föður þeirra skoraði í dag á hvern þann sem veit hvar þeir eru niðurkomnir að gefa sig fram.

Líf án ofbeldis fordæmir aðgerðir stjórnvalda, og krefjast jafnframt að nafngreindur starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur fái ekki að koma nærri málefnum Eddu Bjarkar.

Samtökin hafi heimildir fyrir því að téður starfsmaður, sem hafi ítrekað gest brotleg í starfi, hafi verið viðstödd í gær þegar Edda Björk var handtekin. Hún hafi ætlað að fjarlægja drengina, án þess að um beina aðfarargerð væri að ræða, sem sé í andstöðu við lög. Synirnir hafi þó ekki verið á svæðinu. Eins séu vísbendingar uppi um að starfsmaðurinn hafi stundað persónunjósnir.

„Líf án ofbeldis fordæmir öll þau stjórnvöld sem líta ekki til þess að börn séu beitt ofbeldi og að ekki sé hlustað á vilja þeirra. Sérstaklega eru þau vinnubrögð barnaverndar fordæmd, að líta framhjá slíku ofbeldi og ganga fram með offorsi í þeim tilgangi að koma börnum gegn vilja sínum í hendur á ofbeldismönnum.“

Þessi sami starfmaður hafi nýlega verið kærður til lögreglu fyrir aðkomu sína að máli Helgu Sifjar Andrésdóttur, en meintar sakir varða persónunjósnir, brot í opineru starfi og skjalafals.

Uppfært: 30. nóvember 2023: 

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur brugðist við yfirlýsingu Lífs án ofbeldis með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í tilefni af frétt sem birtist á vef DV i gær, miðvikudaginn 29. nóvember, þar sem voru miklar rangfærslur og starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur var nafngreindur, vill velferðarsvið Reykjavíkurborgar koma eftirfarandi á framfæri:

Aðfarargerðir í Reykjavík eru á forræði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem framkvæmir þær í kjölfar niðurstöðu dómstóla á grundvelli barnalaga. Barnavernd kemur ekki að ákvörðunartöku í aðfararmálum. Samkvæmt barnalögum boðar sýslumaður fulltrúa barnaverndar á staðinn og er hlutverk þeirra að gæta hagsmuna barns. Í því felst að reyna að tryggja að aðstæður hafi sem minnst álag í för með sér fyrir barnið. Barnavernd hefur enga heimild til að stöðva aðgerð eða breyta ákvörðun dómstóla.

Rétt er að árétta að allar ákvarðanir varðandi vinnslu barnaverndarmála í Reykjavík eru teknar í teymum og staðfestar af yfirmönnum. Enginn einn einstaklingur stendur að baki þeim eða ræður för.“

Yfirlýsing Lífs án ofbeldi í heild:

„Samtökin Líf án ofbeldis hafa nú hafið undirskriftasöfnun til að fordæma vinnubrögð íslenska ríkisins í tengslum við ákvarðanir sem leiddu til framsals Eddu Bjarkar Arnardóttur til Noregs og aðför gagnvart sonum hennar þremur í þeim tilgangi að afhenda þá föður þeirra í Noregi, í andstöðu við eindreginn vilja þeirra. Áréttað er að rangfærslur sem lögmaður föður heldur fram um að það varði við hegningarlög að hafa börnin í sinni umsjá líkt og hann heldur fram í fjölmiðlum, standast ekki.

Þess er jafnframt krafist að Barnavernd Reykjavíkur og Barnaverndaryfirvöld leysi Helgu Einarsdóttur, starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur, tafarlaust frá öllum störfum sem tengjast málum Eddu Bjarkar og frá öllum störfum fyrir íslenska ríkið sem varða hagsmuni barna. Krafan er sett fram vegna starfshátta hennar yfir áratuga tímabil sem fela í sér ólögmætar aðferðir, aðferða sem gætu falið í sér valdníðslu gagnvart öðrum lögmætum stjórnvöldum og aðferðum sem grafa undan lögvörðum sjálfstæðum réttindum barna.

Íslenska ríkið hefur rannsakað ýmsar stofnanir sem tengjast börnum og skýrslur verið birtar um niðurstöður þeirra um brotalamir í rekstri íslenskra meðferðarheimila fyrir börn. Í tilviki Varpholts, Arnarholts og Laugalands var það sami barnaverndarstarfsmaðurinn í nær öllum málum, Helga Einarsdóttir, sem brotið hafði gegn starfsskyldum sínum. Frásagnir þeirra sem voru á þessum meðferðarheimilum hafa komið fram í fjölmiðlum, en þar er Helga m.a. sögð hafa litið framhjá ofbeldi, og vistað börn utan heimilis foreldra að ástæðulausu. Sterkar vísbendingar hafa komið fram í fleiri málum um að Helga Einarsdóttir vinni ekki í samræmi við barnaverndarlög, þar sem m.a. hafa fallið refsidómar í sakamálum er varða kynferðisbrot gegn börnum, þar sem fram kemur að Helga Einarsdóttir sinnti ekki tilkynningum um grun um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum.

Helga Einarsdóttir ræður nú för í báðum þeim grimmu aðfararmálum sem rekin hafa verið fyrir sýslumanni nýlega, þ.e. bæði í máli Helgu Sifjar og Eddu Bjarkar. Á sömu vikunni hefur lögregla lýst eftir Eddu Björk og barni Helgu Sifjar eins og um stórglæpafólk sé að ræða, en þessar aðferðir eiga sér engin fordæmi á Íslandi. Búið er að kæra Helgu Einarsdóttur til lögreglu, m.a. fyrir skjalafals, og setja inn kvörtun til Umboðsmanns Alþingis yfir störfum barnaverndarstarfsmanna við aðfarargerðir.

Furðu sætir að barnaverndaryfirvöld dragi ekki starfsfólk til ábyrgðar sem ítrekað gerist brotlegt í starfi, jafnvel áratugum saman. Hvaða tilgangi þjónar það að gera ítarlegar rannsóknir á mistökum við meðferð barnaverndarmála í fortíðinni, ef starfsmenn eru ekki látnir sæta neinni ábyrgð. Hvers vegna er lögð áhersla á að lögreglumenn séu ekki að störfum á meðan þeir eru til rannsóknar, en barnaverndarstarfsmaður fær að ganga fram með offorsi gegn viðkvæmum börnum áfram þrátt fyrir að vera til rannsóknar fyrir hegningarlagabrot í opinberu starfi.

Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að Helga Einarsdóttir hafi verið viðstödd handtöku Eddu Bjarkar í gær, þann 28. nóvember sl., í þeim tilgangi að sækja syni hennar og koma þeim til föður utan aðfarargerðar, sem á að vera í höndum Sýslumanns. Þetta verður ekki skilið á annan veg en að Helga hafi haft þann ásetning að koma barnavernd undan því að fylgja þeim lögum sem gilda um slíkar aðgerðir og Sýslumaður hefur einn lagaheimild til að framkvæma. Synirnir voru ekki viðstaddir handtökuna og því ekki sóttir af hálfu Barnaverndar þann dag. Helga Einarsdóttir var jafnframt viðstödd aðfarargerð við heimili Eddu Bjarkar í október sl. og gætti þar ekki hagsmuna barnanna líkt og komið hefur fram í yfirlýsingu lögmanna Eddu Bjarkar, sem gengur þvert gegn lögum varðandi slíka aðfarargerð. Hún kannaði t.d. ekki vilja drengjanna til afhendingar heldur liðsinnti föður við að ljúga að drengjunum að mamma þeirra væri nú þegar farin til Noregs, auk þess sem hún pakkaði ýmsum verðmætum af heimili Eddu í ferðatöskur og setti út í bíl föður. Þá eru einnig að finna vísbendingar í gögnum mála hjá Eddu Björk og Helgu Sif, að Helga Einarsdóttir hafi stundað persónunjósnir gagnvart óbreyttum borgurum sem hafa ekkert til saka unnið, og þannig misnotað aðgang sinn að upplýsingum frá lögreglu, í þeim tilgangi að hafa uppi á mæðrunum og börnum þeirra.

Eindreginn vilji sona Eddu Bjarkar hefur verið að búa hjá móður sinni og systkinum á Íslandi. Liggur það fyrir í öllum gögnum í öllum þeim dómsmálum sem höfðuð hafa verið vegna þeirra. En enginn hefur hlustað á drengina nema móðir þeirra sem á endanum fór og sótti þá til föður. Hann hefur sannarlega fulla forsjá en þeir vilja sannarlega ekki vera hjá honum. Þeir eiga rétt á því samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna að tekið sé tillit til vilja þeirra. Öllum stjórnvöldum á Íslandi ber að taka tillit til vilja barna við allar stórar ákvarðanir varðandi þeirra líf – líka ákvörðun um að taka þau með valdi frá foreldri og systkinum þar sem þeir hafa búið nú í að verða tvö ár. Þá hefur einnig verið litið framhjá þeim gögnum sem sýna að faðir hefur beitt börnin ofbeldi og vanrækslu. Líf án ofbeldis fordæmir öll þau stjórnvöld sem líta ekki til þess að börn séu beitt ofbeldi og að ekki sé hlustað á vilja þeirra. Sérstaklega eru þau vinnubrögð barnaverndar fordæmd, að líta framhjá slíku ofbeldi og ganga fram með offorsi í þeim tilgangi að koma börnum gegn vilja sínum í hendur á ofbeldismönnum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“
Fréttir
Í gær

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“
Fréttir
Í gær

Skagfirðingur á níræðisaldri keyrði fullur og lét sig hverfa

Skagfirðingur á níræðisaldri keyrði fullur og lét sig hverfa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína