Helga Sif Andrésdóttir, móðir drengs sem lögregla lýsti eftir fyrr í dag, hefur lagt fram kæru á hendur starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur þar sem má meðal annars finna ásakanir um skjalafals og njósnir. Ríkissaksóknari hefur staðfest að barnsfaðir hennar er enn til rannsóknar vegna gruns um að hafa beitt son sinn ofbeldi, en móðir telur með öllu ótækt að barnavernd sé að tjalda öllu til að koma drengnum aftur í hendur manns sem er meintur gerandi í virkri rannsókn.
Samkvæmt kæru, sem DV hefur undir höfund, hafði Helga fengið afrit af hluta samskipta sem starfsmaður barnaverndar átti við landamæraeftirlitið þar sem barnavernd var að kanna hvort Helga hafi mögulega farið með drenginn sinn úr landi. Drengurinn er með lögheimili hjá föður og hafði verið komið í hans umsjá með aðfarargerð sem fór fram á barnaspítalanum á síðasta ári, en málið vakti mikla athygli og harða gagnrýni. Nokkrum mánuðum síðar fóru eldri systkini drengsins í skóla hans, námu hann á brott og komu aftur til móður, en faðir hefur síðan þá leitast eftir því að fá drenginn aftur.
Helga hefur farið huldu höfði með syni sínum og sökum aðfarargerðar á síðasta ári telur hún sig ekki geta treyst barnaspítalanum fyrir læknismeðferð drengsins, sem glímir við sjúkdóm.
Samkvæmt þeim gögnum sem Helga fékk um áðurnefnd samskipti við landamæraeftirlitið hafði starfsmaður barnaverndar fengið þær upplýsingar að Helga hafi ekki átt bókað flug úr landi frá árinu 2019. Engu að síður sást á öðrum tölvupóst að þar var sami starfsmaður að óska eftir upplýsingum um ónafngreinda konu og fékk þau svör að sú hafi átt bókað flug í janúar. Helga kannast ekkert við að hafa átt slíkt flug, en veit þó til þess að kona, sem var í skamman tíma vistunaraðili drengsins, átti flug á þessari tilteknu dagsetningu.
Eins hafi barnavernd fengið upplýsingar um það hvort frændi Helgu hafi átt bókað flug.
Helga telur að þarna vanti hluta gagna sem sýni svart á hvítu að barnavernd hafi leitast eftir upplýsingum um ferðir þriðja aðila, fyrrum vistunaraðila, úr landi. Engu að síður hafi barnavernd lagt fram gögn þar sem því er haldið fram að þarna hafi starfsmenn aðeins spurt um ferðir Helgu og sonar hennar, en þær staðhæfingar fái ekki stoð í fyrri samskiptum við eftirlitið þar sem skýrt var tekið fram að Helga hafi ekkert flug bókað frá árinu 2019.
„Telur kærandi að það, að Barnavernd Reykjavíkur hafi átt við skjöl sem frá henni stafa og lagt þau fram fyrir Umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur í rangri mynd, sé brot eitt og sér sem standi sjálfstætt utan við allt það sem á hefur gengið í málefnum kæranda og barna hennar. Þannig hafi barnaverndin gerst sek um skjalafals og geta starfsmenn embættisins ekki kennt kæranda, hennar framkomu og hegðun, um brotið. Þó kærandi telji að fjöldi annarra brota hafi verið framin við málsmeðferð barnaverndar Reykjavíkur og að afleiðingarnar hafi verið skelfilegar fyrir hana og börn hennar.“
Lögmaður Helgu, sem ritaði kæruna, tekur jafnframt fram að það sé vægast sagt undarlegt að Barnavernd Reykjavíkur sé yfirhöfuð með málið á sínu borði, enda hvorki Helga né barnsfaðir hennar búsett í sveitarfélaginu. Hins vegar hafi Helga haft veður af því að lögmanni föður hafi verið lofað því að ef barnavernd í Reykjavík kæmist í málið, þá yrði drengurinn sóttur. Segir lögmaður föður í tölvupóst til Borgarbyggðar, þar sem málið var áður rekið, orðrétt:
„Ég trúi ekki að þið ætlið að sitja hjá og leyfa mömmunni að komast upp með þetta!
Hafið þið ráðfært ykkur við BOFS? Ég talaði við starfsmenn BVN í Rvk á sínum tíma þegar móðirin hélt drengnum frá föður í 6 mánuði og fékk þær upplýsingar að nefndin í rvk myndi klárlega sækja drenginn. Barnavernd í árborg fór með það mál.“
Eru starfsmenn barnaverndar sakaðir um brot í opinberu starfi, þ.e. að hafa gerst sek um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess. Helga hafi ítrekað verið sökuð um ósamvinnuþýði þrátt fyrir að hafa ítrekað sjálft átt frumkvæði að samskiptum. Þetta uppnefni hafi hún fengið eftir ítrekaðar beiðnir um að fá afhenda áðurnefnd samskipti við landamæraeftirlitið í heild sinni. Þessum beiðnum hafi starfsmenn ekki svarað og því í raun þeir sem ekki voru samstarfsfúsir,
Með rangfærslum hafi starfsmenn stuðlað að því að Umdæmaráð Reykjavíkur ákvað að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði.
Þá eru starfsmenn sakaður um skjalafals og að leggja fram röng sönnunargögn. Ljóst sé að barnavernd hafi rangfært gögn þegar staðhæft var að Helga væri ósamvinnufús þegar hún hafi aðeins verið að tryggja réttláta málsmeðferð og eins hafi starfsmenn þurft að klippa til skjal og skeyta því saman við annað til að fela hluta samskipta við landamæraeftirlitið til að skýla því að hafa njósnað um ferðir þriðja aðila í málinu.
Umdæmaráð Reykjavíkur, eins og kemur fram hér að ofan, hefur ákveðið að drengurinn skuli vistast utan heimilis í tvo mánuði. Í kjölfarið var skorað á Helgu af afhenda drenginn, en annar þyrfti að auglýsa eftir honum í fjölmiðlum með mynd, þrátt fyrir að barnavernd viðurkenni að slík auglýsing yrði sérstaklega íþyngjandi fyrir 11 ára dreng. Þessi áskorun var send á fimmtudag og í kjölfarið bárust svör frá lögmanni Helgu um að hún væri enn að reyna að átta sig á stöðunni og hvað væri best með tilliti til hagsmuna drengsins. Lýst var eftir drengnum í dag.