Leikarinn Dean Cain var mjög vinsæll á tíunda áratugnum. Hann er best þekktur fyrir að leika Clark Kent/Súperman í vinsælu þáttunum Lois & Clark: The New Adventures of Superman sem voru í loftinu frá 1993 til 1997.
Hann hefur komið fram í fleiri þáttum, eins og Beverly Hills 90210, Just Shoot Me! og Frasier. En undanfarin ár hefur hann haldið sig að mestu frá sviðsljósinu og var því fágæt sjón þegar hann mætti á árlegu jólagönguna í Hollywood.
Leikaraferill hans hefur ekki verið upp á marga fiska síðastliðin ár en hann hefur vakið athygli fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Árin 2016 og 2020 lýsti hann yfir stuðningi við Donald Trump, þrátt fyrir að hafa áður sagst vera „mjög vinstri sinnaður“ þegar kemur að ýmsum málaflokkum.