Veggjalús hefur fylgt manninum frá örófi alda og finnst hún út um allan heim, meira að segja á Íslandi. Hún nærist á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum, oftar en ekki í skjóli nætur.
France 24 greinir frá því veggjalýs hafi fundist víða í París að undanförnu, meðal annars á Charles de Gaulle-flugvelli og í neðanjarðarlestum borgarinnar. Þá hafa þær komið sér fyrir í byggingum, þar á meðal söfnum og vinnustöðum.
„Enginn er öruggur. Við þurfum að bregðast við þessu,“ sagði Emmanuel Gregoire, fyrsti aðstoðarborgarstjóri Parísar á samfélagsmiðlinum X.
Franska matvælastofnunin, ANSES, telur að rekja megi þessa fjölgun til tíðari ferðalaga fólks eftir kórónuveirufaraldurinn, en lýsnar koma sér oftar en ekki fyrir í farangri ferðalanga. Þá virðist skordýraeitur ekki virka jafn vel á þær og áður.
NPR greinir frá því að á árunum 2017 til 2022 hafi rúmlega tíu prósent franskra heimila glímt við veggjalýs á einhverjum tímapunkti.
Clement Beaune, samgönguráðherra Frakklands, segir að fulltrúar fyrirtækja í almenningssamgöngum verði kallaðir til fundar í vikunni þar sem farið verður yfir leiðir til að takmarka útbreiðslu óværunnar.
Þá hefur Gregoire kallað eftir því að forsætisráðherrann, Elisabeth Borne, setji á laggirnar starfshóp sem myndi leggja til leiðir í baráttunni.