Á annað hundrað manns taka nú þátt í leit að níu ára stúlku sem ekkert hefur spurst til síðan um kvöldmatarleytið á laugardag.
Stúlkan, Charlotte Sena, var í útilegu með fjölskyldu sinni og vinum í Moreau Lake í New York-ríki þegar hún hvarf. Óttast lögregla að hún hafi verið numin á brott.
CNN segir frá því að stúlkan hafi farið í hjólreiðatúr með vinum sínum á laugardag og hjólaði hópurinn nokkra hringi í kringum svæðið. Charlotte ákvað að taka einn hring í viðbót, ein síns liðs, en skilaði sér ekki til baka.
Stúlkan sást síðast um klukkan 18:15 á laugardag og fannst hjólið hennar um klukkan 18:45. Lögreglu var gert viðvart í kjölfarið.
Á blaðamannafundi sem lögregla hélt í gær kom fram að grunur hefði fljótlega vaknað um að stúlkunni hefði verið rænt. Sporhundar hafa meðal annars tekið þátt í leitinni og þá hefur verið leitað með drónum og þyrlu úr lofti.