Nú hefur ný rannsókn leitt í ljós að það eru ekki „bjórgleraugun“ sem valda því að þér finnst fólkið í kringum þig fallegra en þú áttir von á. Það er frekar hugrekkið, sem þú drekkur í þig, sem veldur þessu. The Guardian skýrir frá þessu.
Rannsóknin var nýlega birt í vísindaritinu Journal of Studies on Alcohol and Drugs. Í henni er mýtan, um allir aðrir verði myndarlegir þegar þú ert undir áhrifum áfengis, aflífuð.
Í rannsókninni, sem var gerð af vísindamönnum við Stanford háskólann og Pittsburgh háskólann, fóru þeir kerfisbundið í gegnum eldri rannsóknir þar sem þátttakendur, bæði fullir og edrú, voru beðnir um að leggja mat á hversu myndarlegt fólk var en þátttakendunum voru sýndar myndir af fólkinu.
Þegar niðurstöður allra þessara rannsókna eru lagðar saman er erfitt að koma augu á sannanir fyrir „bjórgleraugnaáhrifunum“.
Vísindamennirnir gerðu síðan sína eigin tilraun þar sem þeir gáfu þátttakendum færi á að hitta fólkið sem þeir höfðu séð myndir af og metið fríðleika út frá.
18 vinapör, karlmenn, voru fengin til að meta hversu aðlaðandi karlar og konur, sem þeir sáu myndir og myndbönd af, voru. Þetta gerðu karlarnir í pörum. Var það fyrirkomulag haft á til að líkja eftir aðstæðum sem koma upp í skemmtanalífinu þar sem samtöl af þessu tagi eiga sér stað.
Körlunum var sagt að það væri möguleiki á að þeir myndu fá tækifæri í framtíðinni til að hitta suma af þeim sem þeir höfðu séð myndir af. Eftir að þeir höfðu lagt mat á hversu aðlaðandi fólkið var á myndum voru þeir beðnir um að benda á þá sem þeir myndu líklegasta gefa sig á tal við ef þeir hittu viðkomandi í alvörunni.
Niðurstaðan af þessari tilraun bendir ekki til að „bjórgleraugnaáhrifin“ séu raunveruleg. En á hinn bóginn hafði áfengisneysla áhrif á hversu líklegt karlarnir töldu að þeir myndu gefa sig á tal við þá sem þeir höfðu sagt vera fríðasta.
Þeim mun meira áfengi sem þeir innbyrtu, þeim mun djarfari voru þeir og tilbúnir til að hitta þá sem þeir töldu fríðasta.
Niðurstaða vísindamannanna er því að áfengi hafi hugsanlega ekki áhrif á hvernig við sjáum og upplifum fegurð annarra, það hafi hins vegar áhrif á sjálfsöryggi okkar þegar við stöndum frammi fyrir þessu sama fólki.