ETIAS er nýtt upplýsingakerfi Schengen-samstarfsins en það hefur verið í undirbúningi síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin 2001.
Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að bandarískir ferðamenn verði meðal annars fyrir barðinu á þessari breytingu. Hefur blaðið eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra, og Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmda stjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að þau telji að nýja kerfið muni ekki hindra för bandarískra ferðamanna en þeir eru fjölmennasti ferðamannahópurinn sem sækir landið heim.
Fólk mun sækja um ferðaheimild í gegnum vefgátt og þarf að veita ákveðnar persónuupplýsingar þar. Einnig verður að framvísa vegabréfi sem rennur ekki út á næstu þremur mánuðum. Þurfa umsækjendur að greiða sjö evrur fyrir umsóknina. Svar berst síðan innan fjögurra daga. Ferðaheimildin, ef hún er samþykkt, gildir síðan í þrjú ár eða þar til vegabréfið rennur út.