fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Sögulegir munir úr starfi íslenskrar nasistahreyfingar til sýnis

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 31. maí 2023 15:30

Kort sem Íslenski þjóðernisflokkurinn seldi í fjáröflunarskyni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagana 2.-4. júní næstkomandi verður safnarasýningin Nordia 2023 haldin í Ásgarði í Garðabæ. Nordia er sýning sem Norðurlöndin skiptast á að halda. Hér á landi var hún haldin síðast árið 2018. Upphaflega var Nordia helguð frímerkjum og var vettvangur fyrir frímerkjasafnara. Sýningin hefur hins vegar smám saman tekið breytingum og má þar nú berja augum sögulega muni úr ýmsum áttum.

Á sýningunni í ár verða til sýnis auk frímerkja m.a. einstakt safn íslenskra seðla, einkagjaldmiðlar, hlutabréf, minnispeningar, heiðursorður, munir sem tengjast þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni og munir sem tengjast einvígi Robert Fischer og Boris Spassky um heimsmeistaratitilinn í skák sem haldið var hér á landi 1972 og var kallað einvígi aldarinnar.

Einnig verða sýndar myndir af leikurum sem voru helstu stjörnur síns tíma, orður og viðurkenningar frá bæði fyrri og seinni heimsstyrjöld, munir frá konungskomum til Íslands og  munir úr sögu lögreglunnar hérlendis.

Á sýningunni verða jafnframt sjaldséðir munir sem tengjast starfsemi Íslenska þjóðernisflokksins. Flokkurinn var starfandi hér á landi á fjórða áratug síðustu aldar. Hann studdi stefnu Adolf Hitler og þýska nasistaflokksins og var áhugasamur um uppgang nasismans hér á landi.

Flokkurinn bauð fram í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum en hlaut mest þrjú prósent fylgi. Flokksmenn marseruðu oft um Reykjavík, klæddir einkennisbúningum, með fána, héldu samkomur og efndu til slagsmála við kommúnista.

Eftir að Bretar hernámu Ísland árið 1940 hætti flokkurinn að mestu leyti starfsemi. Leyniþjónusta breska hersins lagði áherslu á að finna gögn sem tengdust starfsemi flokksins til að mynda félagaskrá. Flokksmenn fóru eftir hernámið leynt með aðild sína að flokknum sem var formlega lagður niður 1944 þegar ljóst þótti að Þýskaland myndi tapa stríðinu í Evrópu.

Munir sem tengjast starfsemi þessarar hreyfingar og íslenskra nasista almennt eru mjög sjaldséðir en talið er að margir fyrrum flokksmenn hafi fargað slíkum hlutum þegar ljóst þótti orðið hvernig síðari heimsstyrjöldin myndi enda.

Meðal muna sem tengjast starfi Íslenska þjóðernisflokksins og verða til sýnis eru eina skírteini flokksmanns sem fundist hefur, innsigli flokksins, hakakross með áletruninni Íslandi allt, barmmerki, áróðursveggspjöld sem flokkurinn dreifði, kort sem seld voru til að afla styrktarfjár, eins konar heiðursorða með hakakrossi og ýmislegt fleira.

Meðlimir íslenska þjóðernisflokksins

„Hluti af íslenskri sögu“

Eigandi munanna sem tengjast starfi Íslenska þjóðernisflokksins og verða til sýnis á Nordia sýningunni vill ekki láta nafns síns getið. Gísli Geir Harðarson, formaður sýningarnefndar, segir í samtali við DV að safnarinn sé mikill áhugamaður um sögu og safni alls kyns sögulegum munum ekki eingöngu þeim sem tengjast starfi hreyfinga á borð við íslenska þjóðernisflokksins.

Gísli segir helstu ástæðu þess að safnarinn vilji ekki láta nafn síns getið sé sú að hann óttist að verða fyrir hugsanlegu aðkasti fyrir að safna munum af þessu tagi sem séu umdeildir og að honum verði gerðar upp skoðanir sem hann hafi alls ekki.

Aðspurður segir Gísli að ríkur vilji hafi verið til þess að hafa sem fjölbreyttasta muni á sýningunni. Það hafi átt þátt í því að óskað var eftir því að sýna þessa muni sem tengjast starfi Íslenska þjóðernisflokksins.

DV spurði Gísla hvort að sýningarnefndin óttaðist að sýning slíkra muna muni reynast umdeild, ekki síst í ljósi þess að á síðustu misserum hafa þær raddir orðið háværari víða um heim að ganga beri sem lengst í að þurrka út muni og önnur merki um stefnur eins og nasismann.

Gísli sagði að munir eins og þessir væru „hluti af íslenskri sögu.“ Ef farið væri eftir kröfum um að allt sem tengdist stefnum eins og nasismanum væri þurrkað út myndi það ekki hjálpa við að forðast að slík fyrirbrigði endurtækju sig.

Hér að neðan má sjá myndir af sumum munanna sem verða til sýnis.

Hluti flokksskírteinisins sem verður til sýnis

 

Kort sem flokkurinn seldi í fjáröflunarskyni
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“

Hvað varð um leikkonuna úr Shining sem sneri baki við Hollywood? – „Ég var stjarna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“