fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Leigjandi hjá Heimstaden harmi slegin eftir uppsögn – „Okkur er þetta mjög þungbært“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 26. maí 2023 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Júlíu Valsdóttur, leigjanda hjá Heimstaden, að Ástjörn á Selfossi, brá í brún er hún fékk bréf frá leigufélaginu, tilkynningu þess efnis að leigusamningi hennar hafi verið sagt upp með 12 mánaða fyrirvara. Ástæðan er sú að Heimstaden er að minnka eignasafn sitt hér á landi og selja margar íbúðir.

Júlía fékk þær upplýsingar hjá Heimstaden að selja eigi allar íbúðir í fjölbýlishúsi félagsins að Ástjörn. Heimstaden er sænskt leigufélag sem hóf starfsemi hér á landi fyrir þremur árum og rekur um 1700 leiguíbúðir hér á landi (heimild: RÚV). Þar sem ekki hefur tekist að fá íslensku lífeyrissjóðina eða aðra stóra fjárfesta til að fjárfesta í félaginu eru rekstrarforsendur þess hér brostnar.

 

Júlía segir í samtali við DV að fréttirnar séu mikið áfall. Gott hafi verið að leigja hjá Heimstaden og leiga sanngjörn. Hún er öryrki með tvö börn sem eru greind með einhverfu. „Ég hef ekkert bakland og hef átt erfitt líf. Ég er búin að bíða eftir félagslegu húsnæði í tíu ár. Auk þess hef ég ekki efni á nýrri tryggingu,“ segir Júlía.

Hún óttast að erfitt verði að komast í félagslegt húsnæði þar sem sveitarfélagið Árborg er skuldum vafið. „Ég hef aldrei getað fengið leigða íbúð hjá Öryrkjabandalaginu hér á Selfossi þó að ég sé 100% öryrki og geti ekki verið á vinnumarkaðnum,“ segir Júlía.

Mjög þungbært að senda bréfin

„Okkur er mjög þungbært að senda þessi bréf. Afleiðingarnar fyrir viðskiptavini okkar snerta okkur djúpt,“ segir Egill Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi. Hann staðfestir að allir íbúar að Ástjörn hafi fengið uppsagnarbréf undanfarið en einnig íbúar í sumum íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. „Við sendum einhverja umferð af uppsögnum fyrir þessi mánaðamót og er þetta blanda af stökum eignum og heilu húsi. Flestar eignirnar eiga það sameiginlegt að vera fjármagnaðar á fljótandi óverðtryggðum vöxtum sem eru yfir 11% og arðsemin frá rekstrinum af þeim er undir 4%.“ Segir Egill að það hafi áhrif á hvaða íbúðir eru seldar fyrst hver fjármagnskostnaðurinn er á þeim. „Við erum að horfa á fjármagnskostnað og rekstrarhagkvæmni.“

Egill segir að flestir leigusamningar Heimstaden séu ótímabundnir en eftir stuttan tíma séu leigjendur komnir með 12 mánaða uppsagnarfrest. Hann staðfestir að til lengri tíma sé stefnt að því að selja allar eignir félagsins og hverfa af markaðnum hér.

„Tólf mánaða uppsagnafrestur ætti að gefa nægilegt svigrúm í eðlilegu árferði en leigumarkaðurinn núna er mjög erfiður. Þess vegna er þetta mjög þungbær ákvörðun fyrir okkur starfsfólkið en auðvitað fyrst og fremst fyrir viðskiptavinina,“ segir Egill og staðfestir það sem hefur komið fram í fréttum áður að Heimstaden hafi komið á markaðinn hér með það fyrir augum að eiga í samstarfi við stofnanafjáresta á borð við lífeyrissjóði en það hafi ekki gengið eftir. Reynt hafi verið til þrautar að fá þessa aðila að borðinu en án árangurs.

„Það er leiðinlegt að þurfa að snúa við á svona góðri vegferð,“ segir Egill.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“