fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

„Þetta mun koma í hausinn á Pútín eins og búmerang“

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 1. mars 2022 08:50

Pútín hefur verið líkt við Hitler í mótmælum víða um heim. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sókn Rússa gegn Úkraínumönnum hefur ekki gengið nærri því eins vel og þeir höfðu reiknað með. Mótspyrna Úkraínumanna hefur verið gríðarlega hörð og mikil og virðist hafa komið Rússum í opna skjöldu. Það sama á við um viðbrögð umheimsins sem hafa gert að verkum að Rússar standa nú einangraðir á alþjóðasviðinu.

Jacob Kaarsbo, sérfræðingur í utanríkis- og öryggismálum, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að atburðarásin fram að þessu hafi gjörbreytt sýn hans á hvað muni gerast í Úkraínu og á Pútín.

Hann sagði að Rússar hafi gert „ótrúlega mörg mistök“ á vígvellinum. Þeir hafi til dæmis sent hersveitir í bardaga á röngum tíma og til að sinna verkefnum sem er erfitt að leysa. „Rússar hafa gert fjölda barnalegra mistaka,“ sagði hann og benti meðal annars á að þeir hafi ekki gert út af við úkraínska flugherinn sem sé alveg ótrúlegt. Það myndu til dæmis Bandaríkjamenn gera til að tryggja sér yfirráð í lofti.

Hann sagði að sumir sérfræðingar telji að Rússar séu nú að endurskipuleggja hernað sinn og í framhaldinu muni þeir valta yfir Úkraínu en hann sagðist ekki hafa trú á því að svo fari. Það sem hafi sést fram að þessu sýni að rússneski herinn glími við undirliggjandi vanda, hann sé illa undirbúinn, herforingjarnir virðist illa menntaðir og mórallinn á meðal óbreyttra hermanna sé lélegur.

Hann sagðist telja að þessi vandamál rússneska hersins geti gert að verkum að næstu stig stríðsins verði grimmdarleg. Fyrsta dæmið um þetta hafi sést í gær þegar Rússar gerðu stórskotaliðsárás á Kharkiv, næst stærstu borg Úkraínu, og var að sjá sem almennar byggingar væru skotmarkið. Borgarstjórnin segir að tugir óbreyttra borgara hafi látið lífið í árásunum.

„Ég held að þeir nái ekki að lagfæra þetta núna. Svo möguleiki Vladímír Pútín til að innrásin og sóknin gangi upp er að reyna að endurtaka leikinn frá Groznij – að jafna allt við jörðu sem hægt er að jafna við jörðu. Það er því miður það sem við sjáum merki um í dag með notkun ónákvæmari vopnabúnaðar, klasasprengjum og ónákvæmum loftárásum. Það hefur venjulega mikið mannfall óbreyttra borgara í för með sér,“ sagði Kaarsbo.

Hvað varðar viðræður Rússa og Úkraínumanna sagði hann nánast engar líkur á að þær beri árangur. Rússar hafi logið og svikið allt síðustu mánuði og reynt að vinna tíma. Það geri þeir líka núna og það viti Úkraínumenn vel. Þeir mæti þó til viðræðna til að sýna vilja sinn til samninga og ef það verður til þess að Rússar geri ekki stóra árás á meðan þá vinni þeir tíma til að styrkja varnir sínar.

Hann sagði að samningaviðræður væru það eina sem gæti létt þrýstingnum þannig að Pútín geti komið út úr þessu með nokkurri reisn en það krefjist þess að hann sé skynsamur og raunsær varðandi þann vanda sem hann stendur frammi fyrir. „En ekkert frá síðustu tveimur mánuðum bendir til annars en að hann sé að missa raunveruleikaskynið. Þess vegna tel ég að þetta sé upphafið að endinum fyrir hann,“ sagði Kaarsbo.

Hann sagði það sitt mat að ef Pútín takist ekki að ná árangri og endi með að leggja Úkraínu í rúst eins og hann gerði í Groznjij þá „mun þetta koma í hausinn á Pútín eins og búmerang“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki