Samantha Lawler, stjörnufræðingur við University of Regina, sagði í grein í The Conversation nýlega að ekki sé langt í að 1 af hverjum 15 hlutum, sem við sjáum á himni, verði gervihnettir en ekki stjörnur. Hún segir að fyrirtæki á borð við Starlink, sem er í eigu Elon Musk, muni hafa mikil áhrif á geimrannsóknir.
„Það verður hörmulegt að rannsaka stjörnurnar og mun gjörbreyta næturhimninum um allan heim,“ skrifaði hún.
Hún er aðalhöfundur rannsóknar, sem verður birt í The Astronomical Journal, þar sem sýnt verður fram á slæm áhrif allra þessara gervihnatta á geimrannsóknir.
Lawler viðurkennir að fyrirtæki á borð við SpaceX auðveldi fólki um allan heim að öðlast Internetaðgang, fólki sem myndi annars ekki hafa netaðgang. Samt sem áður sé nauðsynlegt að takmörk verði sett á fjölda sýnilegra gervihnatta á braut um jörðina. Annars muni „sýn okkar til stjarnanna fljótlega breytast að eilífu“ og bætti við: „Við getum ekki sætt okkur við að missa aðgengi okkar að næturhimninum sem við höfum getað horft á og tengst svo lengi sem mannkynið hefur verið til.“