fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Fréttir

Íslensk kona fékk drep í brjóst í kjölfar krabbameinsleitar – Telja lækni sekan um mistök og vanrækslu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 24. ágúst 2021 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaður konu sem fékk drep í brjóst í kjölfar skoðunar fyrir brjóstakrabbameini telur að læknirinn sem framkvæmdi skoðunina hafi gert mistök, sýnt af sér vanrækslu og ótilhlýðlega framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Konan er ein af þeim tíu konum sem hafa kvartað til landlæknis og krafist bóta vegna vanrækslu í tengslum við skimun eða sérskoðun á brjóstum.

Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögmaður hjá Sævari Þór og partners, segir að stungið hafi verið á sílikonpúða konunnar í sérskoðun, en margsinnis hafi verið stungið í brjóstið með grófnál í skoðun sem tók rúma klukkustund, en venjulega á aðeins að þurfa fáeinar stungur í slíkri skoðun. Í kjölfar skoðunarinnar hafi komið sýking í brjóstið og loks drep.

„Konan fór í skimun fyrir brjóstakrabbameini, sem gaf tilefni til sérskoðunar á brjóstum, þar sem grunur var að hún væri með brjóstakrabbamein. Var henni sagt að hún þyrfti að koma í myndatöku. Þegar hún mætti í sérskoðunina fór hún í myndatöku og svo var framkvæmd ástunga með grófnál í annað brjóst hennar. Konan var með sílikonpúða. Læknirinn stakk margsinnis í brjóstið og tók þetta ferli rúma klukkustund. Konan fékk sýkingu í brjóstið og loks drep“

Umræddur læknir er ekki lengur starfandi á Landspítalanum og farinn úr landi.

„Konan var stungin ítrekað í brjóstið. Að öllum líkindum hefur verið stungið í púðann og gatið þar af leiðandi komið við framkvæmd á þessum ástungum. Byggt er á því að mistök, vanræksla og ótilhlýðileg framkoma við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi átt sér stað umrætt skipti. Því hefur verið lögð fram bótakrafa.“

Hilma segir að konan glími við verulegar afleiðingar í dag.

„Ástungurnar höfðu þær afleiðingar í för með sér að fjarlægja þurfti drepið með aðgerð. Í leiðinni voru púðar konunnar fjarlægðir og í ljós kom að gat var á öðrum púðanum. Með kvörtun til landlæknis hefur verið krafist skýringa á því hvað fór úrskeiðis við framkvæmd ástungnanna, hvernig gat hafi komið á púðann og hvernig drepið hafi myndast. Niðurstaða liggur ekki fyrir.“

Skjólstæðingur hennar glímir jafnframt við andlegar afleiðingar.

„Hún upplifir mikinn kvíða og depurð, ásamt svefntruflunum. Þá er hún mjög kvíðin að upplifa svona aftur.“

Í samtali við mbl.is segir Hilma að fjarlægja hafi þurft mikinn vef úr brjósti konunnar, sem reyndist ekki vera með brjóstakrabbamein. Annað brjóst konunnar er því verulega afmyndað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þorbjörg Sigríður vill þyngja refsingar í ofbeldismálum

Þorbjörg Sigríður vill þyngja refsingar í ofbeldismálum