fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Fréttir

„Í kvöld varð barnið mitt fyrir hatursárás“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 21. ágúst 2021 18:00

Hinsegin dagar voru haldnir nú í byrjun ágúst

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinahópur sem samanstendur af sex hinsegin unglingum varð fyrir þeirri hræðilegu reynslu í gær að stór hópur annara unglinga veittist að þeim með ókvæðisorðum, ógnunum og hótunum í atlögu sem stóð yfir í um hálftíma.

Móðir eins barnsins, Lella Erludóttir, vakti athygli á málinu á Facebook, og segist vonast til þess að með því nái hún að vekja fólk til umhugsunar og að foreldrar ungmenna ræði við börn sín og bendi þeim á að í orðum og ógnandi tilburðum geti falist ofbeldi.

Færsla Lellu var eftirfarandi:

„Í kvöld varð barnið mitt fyrir hatursárás.

Vinahópurinn var að koma úr kvikmyndahúsi þegar hópur veitist að þeim með ókvæðisorðum og hótunum sem sneru að því að barnið mitt og vinir eigi ekki tilverurétt vegna þess að þau falla ekki að normi sem árásaraðilunum er þóknanlegt. Árásin var tilhæfulaus og stóð yfir í hálftíma. Óttinn var yfirþyrmandi og út úr þessari upplifun koma brotnir og breyttir einstaklingar. Það verður enginn samur eftir að hafa upplifað óttastjórnun og árás af þessu tagi.

Hatursorð eru ofbeldi.

Ógnandi tilburðir eru ofbeldi.

Fáfræði og fávitaskapur er stórhættuleg blanda.

Sýnum virðingu, kærleika og stuðning öllum mönnum og kennum börnunum okkar það í orði og á borði.“

Hinsegin og stolt

Í samtali við DV segir Lella að vinahópurinn hafi orðið fyrir árásinni í gær sökum þess að þau eru hinsegin.

„Barnið mitt er hinsegin og á vinahóp þar sem þau eru öll hinsegin stolt og bera sinn regnbogafána með stolti,“ segir Lella sem segist hafa í uppeldi barna sinna markvisst unnið að því að byggja þau upp þannig að þau séu stolt af því hver þau eru og fyrir hvað þau standa.

Þegar vinahópurinn var búinn í bíó í gær hitti hann fyrir stóran hóp unglinga sem þau könnuðust ekki við.

Um var að ræða hóp sem samanstóð af á bilinu 15-20 unglingum. Til að byrja með hafi hópurinn verið að spyrja vinahópinn almennra spurninga sem svo fóru að snúast um þá staðreynd að þau eru hinsegin,  meðal annars um hvaða persónufornöfn þau noti og hvaða kyn þau skilgreini sig sem.

Ógnuðu þeim með grjót í hendi

Síðan fóru spurningarnar að vera ágengari. Vinahópurinn reyndi að koma sér undan en hinn hópurinn fylgdi þeim fast á eftir.

„Þau reyna að labba áfram en eru ekki látin í friði og hópurinn er einhvern veginn að fara í kringum þau og spyrja óþægilegra agressíva spurninga. Svo fer þetta út í : „Þið ættuð bara að fara og hengja ykkur“, og „Hvernig væri að þið mynduð bara drepa ykkur.“

Lella segir að nokkur börnin í vinahópnum glími við kvíða og hafi átt erfitt með aðstæðurnar, brostið í grát og viljað koma sér undan. Aðrir í hópnum reyndu að vernda hina, komu þeim inn í strætóskýli og einn hafði samband við skiptiborð lögreglu.

Áður en lögregla var kölluð til sýndist vinahópnum að hinir væru loks hættir. Því tilkynntu þeir í síma að engin þörf væri á lögregluafskiptum og slitu símtalinu.

„Áður en þau vita af koma þau til baka með stein í hendi og eru með ógnandi tilburði.“

Vinahópurinn komst loks undan þegar strætó stoppaði á svæðinu, en þau báðu vagnstjórann um að hleypa ekki hinum um borð og varð hann við því.

Þessi hegðun kemur ekki úr lausu lofti

Lella segir hópinn mjög sleginn eftir þessa lífsreynslu, en þau upplifðu gífurlegan ótta.

„Því miður er þetta ekki í fyrsta skiptið sem allir í hópnum verða fyrir þessu,“ segir Lella, en þetta var þó í fyrsta sinn sem hennar barn lenti í viðlíka reynslu.

Hún segir vinahópinn ofboðslega brotinn og treysta sér illa til að vera í fjölmenni og sjálf er hún verulega slegin.

Um er að ræða börn beggja vegna í málinu og segir Lella að hegðun gerendanna komi ekki úr lausu lofti heldur sé lærð úr umhverfinu.

„Þessi hegðun kemur ekki úr einhverju lausu lofti. Þetta er eitthvað sem þau hafa heyrt, eitthvað sem þau hafa séð.“

Hún segir að það valdi henni áhyggjum að sjá hversu langt fólk sé oft tilbúið að ganga í orðum. Orð geti nefnilega verið alveg jafn meiðandi og líkamlegt ofbeldi.

„Þetta veldur mér bara áhyggjum , hversu langt fólk leyfir sér oft að ganga í orðum. Orð meiða. Þau særa. Þau eru svo máttug og skilja eftir sig svo ótrúlega djúp sár. Þó það sjái ekkert á þessum hóp núna líkamlega þá mun þetta taka tíma að jafna sig andlega og að það mun taka þau tíma að geta treyst jafnöldrum sínum.“

Enginn stoppari

Orð geti verið beitt sverð og oft átti börn sig ekki á því. Árásarhópurinn veittist að hinum með hatursfullum orðum með hætti sem vakti mikinn ótta. Um var að ræða mun fjölmennari hóp, þau voru á tíma vopnuð steinum, þau veittust að þeim og reyndu að króa þau af.

„Það sem hræðir mann svolítið sem foreldri er að það er enginn filter, það er enginn stoppari. Fólk leyfir sér svo ótrúlega ljóta hluti í orðum. Það er eins og sérstaklega börn átti sig ekki alveg á því hvað þetta er ofboðslega beitt sverð. Þetta er svo máttugt tól að nota. Börnin bara einhvern veginn gera sér ekki grein fyrir þessu. Þannig þetta skilur eftir sig svo ótrúlega djúp sár og ótta.“

Lella vonast til að foreldrar fræði börn sín um það að ofbeldi sé ekki bara líkamlegt, það geti líka falist í orðum, óttarstjórnun og ógnandi hegðun.

„Það er það sem ég vildi vekja fólk aðeins til umhugsunar um.“

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

17 ára piltur áfrýjar ekki dómi fyrir að bana Bryndísi Klöru

17 ára piltur áfrýjar ekki dómi fyrir að bana Bryndísi Klöru
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“