Almannavarnir og Landlæknir voru með upplýsingafund um stöðuna í Covid-faraldrinum. Hér að neðan er það helsta sem kom fram á fundinum.
Síðasta sólarhring hafa greinst 118 smit innanlands. Af þeim voru 80 fullbólusettir en 34 óbólusettir. Fjórir höfðu fengið fyrri sprautu.
Sú spurning brennur á landsmönnum hvort bóluefni séu að varna því að margir veikist illa og þurfi á sjúkrahús. Covid-innlögnum á Landspítalann hefur fjölgað undanfarið.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, minnir á að reglur þess efnis að sýna þurfi neikvætt PCR-prófi við komuna til landsins, sem hafa tekið gildi.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis, fór yfir málin. Um helmingur þeirra 118 sem greindust í gær voru í sóttkví. Hún greindi frá því að þeir sem hafa fengið bólusefni Jansen fái örvunarsprautu með með efni Moderna eða Pfizer.
Alma Möller landlæknir greindi frá því að þrjár innlagnir á Landspítala hefðu bæst við í gær. Tíu liggja á sjúkrahúsi og tveir eru á gjörgæslu. Segir Alma að bólusetningar dragi mikið úr veikindum og staðan væri mun verri án bólusetninganna. Alma hvatti fólk til að ganga til liðs við bakvarðasveitir, jafnt heilbrigðisstarfsfólk og aðra.
Í fyrirspurnum blaðamanna var vakin athygli á því atviki er tvær konur gerðu hróp að heilbrigðisstarfsfólki við bólusetningu þungaðra kvenna og sökuðu yfirvöld um að sprauta eitri í konur. Þetta var borið undir Kamillu sem sagði að konurnar sem færu í þessa bólusetningu gerðu það til að vernda sig og börnin sín. Hún vonar að konurnar haldi sínu striki. Kamilla veit ekki hvað segja skuli við fólk sem mótmælir með þessum hætti.
Spurt var hvort sá tími myndi renna upp að Covid yrði eins og hver önnur flensa. Kamilla svaraði því til að vonir standi til að hægt verði að gefa sértæk bóluefni gegn delta-afbrigðinu sem virki jafnvel og bóluefni hafa virkað gegn fyrir afbrigðum.
Alma segir að vonir séu bundnar við að veikindi verði minni en í fyrri bylgjum en ekki sé tímabært að spá fyrir um þróunina. Áhyggjur séu af stöðunni en Landspítalinn er í viðbragðsstöðu og hefur hugsað langt fram í tímann.