Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, var í dag dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og til greiðslu tæplega 20 milljóna króna sektar í ríkissjóðs. Jón hafði í héraði verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sambærilegrar sektar. Dómurinn er því þyngdur nokkuð.
Skattalagabrot Jóns Inga var framið árið 2009 en hann taldi ekki fram ríflega 110 milljóna króna tekjur af uppgjöri á 44 framvirkum gjaldsmiðlasamningum sem gerðir voru við Glitni banka. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur af þessum tekjum er rúmlega 11 milljónir króna.
Athygli vekur hvað mál Jóns Inga hefur dregist lengi en hann var fyrst ákærður af sérstökum saksóknara vorið 2013.
DV greindi frá dómnum í fyrra og leitaði álits hjá Félagi grunnskólakennara sem Kennarafélag Reykjavíkur á aðild að um þá staðreynd að formaðurinn væri dæmdur fyrir skattsvik. Vildi forysta félagsins ekki tjá sig um málið. Þá kvaðst Kennarasamband Íslands ekkert ætla að aðhafast í málinu.
Þess má geta að Jón er einnig formaður Kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Jón brást við dómnum í fyrra, sem og fréttaflutningnum, með yfirlýsingu, þar sem sagði að um hefði verið að ræða skattlagningu á tekjum sem aldrei urðu til. Yfirlýsingin sem birt var 26. júní 2019 var eftirfarandi:
„Kæru vinir og félagar.
Ég hef staðið í flóknum málaferlum í tæp 8 ár eins og rifjað hefur verið upp reglulega. Enn er langt í land að þar fáist lokaniðurstaða. Hér á landi eru 2 aðaldómsstig. Héraðsdómur og svo Landsréttur. Í vikunni fékk ég dóm frá sama dómara við Héraðsdóm og hafði fyrir ári síðan vísað málatilbúnaði gegn mér frá dómi vegna dóma frá Mannréttindadómstól Evrópu. Við áfrýjun þessa dóms nú frestst réttaraáhrif dómsins þar til Landsréttur hefur fellt sinn dóm. Því eru efnisatriði dómsins ekki gild núna því málið fer fyrir Landsrétt
Þetta sama mál var jafnframt kært af mér til Mannréttindadómstóls Evrópu í fyrra og bíður þar dóms. Nokkrir dómar í sambærilegum málum og mínu hafa þar fallið sl 2 ár gegn íslenska rikinu. Íslenska ríkið hefur tapað þeim öllum.
Hin endalega niðurstaða þessa máls sem fjallar um tæknilega skattlagningu tekna sem aldrei urðu til í raunveruleikanum er því ekki komin. Óvægin og særandi umræða um mig nú er því miður staðreynd sem ég harma mjög vegna trúnaðarstarfa sem ég sinni af einurð fyrir kennara og fleiri. Þessi málaferli hafa á engan hátt borið skugga á þau störf. Þórðargleðinni sem blásið hefur verið til verður líka að fresta þar til flautað er til leiksloka í mínu máli. Það er eflaust sárt fyrir einhverja en þannig eru leikreglur réttarríkisins.
Ást og friður.“
Landsréttur féllst ekki á rök Jóns Inga en hann getur sótt um áfrýjun til Hæstaréttar. Hins vegar segir að þar sem meðferð málsins hafi dregist verulega án þess að ákærða verði um það kennt sé ákveðið að fresta fullnustu refsingar, bæði refsivist og fésekt.