fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Stórhætta skapaðist í miðbænum – Á stolnum bíl, í annarlegu ástandi á flótta undan lögreglu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 13. september 2020 17:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bifreið var stolið í miðborginni í dag. Skömmu eftir að lögreglu barst tilkynning um málið urðu lögreglumenn varir við bifreiðina og reyndu að stöðva för hans.

Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu fyrr en lögreglan hafði elt hann um miðbæ Reykjavíkur. Mikil hætta skapaðist því ökumaður reyndi að hrista lögregluna af sér með því að aka eftir göngugötu á Laugavegi. Litlu mátti muna að gangandi vegfarendur yrðu fyrir bílnum.

Eftir að lögreglan hafði hendur í hári ökumannsins kom á daginn að hann var í annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu. Ökumaður á yfir höfði sér kæru fyrir ýmis brot og var vistaður í fangaklefa og verður yfirheyrður þegar hann er í betra ástandi.

Þetta kom fram í dagbók lögreglu.

Þar kom einnig fram að innbrot hafi átt sér stað í hverfi 108 og verðmætum stolið úr bifreið. Lítilli rútu var stolið í sama hverfi en fannst svo mannlaus rúmlega tveimur tímum síðar. Einnig í 108 var brotist inn í íbúðarhús og verkfærum stolið.

Í hverfi 221 var brotist inn í geymslur í fjölbýlishúsi og einhverjum verðmætum stolið.

Ölvaður ökumaður var stöðvaður á Seltjarnarnesi og sviptur ökuréttindum.

Annar ökumaður í annarlegu ástandi var handtekinn í hverfi 210 eftir að hafa ekið bifreið sinni út af veginum. Viðkomandi er vistaður í fangaklefa þar til hann er kominn í ástand þar sem hægt er að taka af honum skýrslu.

Tveir voru handteknir í Kópavogi með mikið magn af þýfi og fíkniefnum. Báðir eru vistaðir í fangaklefa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt