fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Börn Steingríms hafa leynt fyrir honum aðkastinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 21. maí 2020 10:25

Mynd: Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Börn Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis og alþingismanns til áratuga, hafa oft leynt fyrir honum aðkastinu sem þau hafa orðið fyrir vegna þess að faðir þeirra er stjórnmálamaður. Þetta kom fram í viðtali þáttarins 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut við Steingrím í gærkvöld.

Umfjöllunarefnið var nýbirt skýrsla um starfsumhverfi á Alþingi en í henni kemur meðal annars fram að 35,7% alþingismanna telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Ennfremur kemur í ljóst að nær 30% þingmanna hafa orðið fyrir áreitni, hegðun sem er ítrekuð og ógnandi. Þá hafa 16% þingmanna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt. Þá hefur nánum fjölskyldumeðlimum um 15% þingmanna verið hótað ofbeldi í tengslum við störf þingmannanna á alþingi. Tæpur helmingur þingmanna segir að starf þeirra hafi valdið fjölskyldu erfiðleikum.

Skýrsluna má lesa hér en samantekt um hana birtist hér fyrir neðan.

„Ég hef orðið fyrir ýmsu, jafnvel því að eignir manns hafi verið skemmdar,“ sagði Steingrímur í viðtalinu á Hringbraut. Aðspurður sagði hann að eiginkona og börn hefðu orðið fyrir aðkasti en þau væru farin að venjast því.

Steingrímur dró fram þær upplýsingar úr skýrslunni að einn fjórði þeirra tilvika sem þingmennirnir nefndu í könnuninni ættu sér stað utan þingstaðarins, úti í samfélaginu. „Þingmannsstarfið er svo sérstakt á margan hátt. Menn verða auðvitað að hafa það í huga þegar þeir bera saman og skoða tölur en það er bara þannig því miður. Við gátum búist við því miðað við vísbendingar annars staðar frá, að þetta væri hátt á meðal þingmanna og hærra en almennt gerist í samfélaginu.“

Verst þegar fjölskyldur þingmanna verða fyrir aðkasti

Steingrímur sagði að menn yrði að sætta sig við að talað væri verr um þingmenn gengur og gerist. Þeir væru opinberar persónur, kjörnir fulltrúar og yrðu að sætta sig við harkalega gagnrýni. „En auðvitað vonar maður það í lengstu lög að það sé sæmilega málefnalegt og það sem er kannski dapurlegast að sjá, þegar þetta bitnar á alsaklausum aðstandendum og fjölskyldum þingmanna. Mér fannst það vera með því dapurlegasta sem blasti við í niðurstöðunum, að helmingur þingmanna telur að starfið hafi valdið fjölskyldunni erfiðleikum, í námi eða starfi. Þar kemur umræðan um stjórnmál og umræðan um þingmenn og hvað það þykir sjálfsagt sumstaðar að kalla þá öllum illum nöfnum og úthúða þeim örugglega við sögu. En það má heldur ekki ofgera því, við erum opinberar persónur og þurfum að taka því þó að ýmislegt sé um okkur sagt.“

Steingrímur sagði að börnin hans hefðu áreiðanlega leynt fyrir honum og hlíft honum við ýmsu aðkasti sem þau hafi orðið fyrir vegna hans. Telur hann það almennt vera svo að börn þingmanna segi þeim oft ekki frá aðkastinu sem þau verða fyrir vegna starfa foreldra sinna á þingi.

Að mati Steingríms eru þó niðurstöður um kynferðislega áreitni, einelti og kynbundin áreiti alvarlegastar. „Í því gildir að hvert einasta tilvik er einu tilviki of mikið. Þetta er eitthvað sem við viljum alls ekki sjá, og er að mínu mati alvarlegra. Hitt er annars eðlis, að glíma við svona afleidd áhrif af þingmennskunni sem slíkri og þeirri staðreynd að þingmenn verða opinberar persónur.“

Samantekt um helstu niðurstöður skýrslunnar

Eftirfarandi eru helstu niðurstöður skýrslunnar, orðrétt úr tilkynningu frá Alþingi

Einelti

Mikill meirihluti þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar um hvort þeir hefðu einhvern tíma orðið fyrir einelti á starfstíma sínum á Alþingi svaraði því neitandi, eða 80%. Þó svöruðu 20% spurningunni játandi en 13 af 153 þátttakendum í könnuninni tóku ekki afstöðu til spurningarinnar. Einelti var algengast meðal þingmanna, en 35,7% þeirra greindu frá því að hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Hlutfallið var 15% meðal starfsfólks skrifstofu og 6,3% meðal starfsfólks þingflokka. Ekki var mælanlegur kynjamunur á hlutfalli þeirra sem greindu frá því að hafa orðið fyrir einelti. Af þeim 28 svarendum sem höfðu upplifað einelti á starfstíma sínum voru 35,7% sem höfðu orðið fyrir því á síðustu sex mánuðum.

Kynferðisleg áreitni

Hlutfall þeirra sem greindu frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni var 16%. Af þeim 24 svarendum sem höfðu upplifað kynferðislega áreitni á starfstíma sínum voru 12,5% sem höfðu orðið fyrir henni á síðustu sex mánuðum. Mikill meirihluti þeirra sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni greindi frá því að karl hefði áreitt sig kynferðislega, eða 87,5%, en 12,5% gerenda voru konur. Einungis 12,5% þeirra sem orðið höfðu fyrir kynferðislegri áreitni tilkynntu um athæfið.

Kynbundin áreitni

Alls greindu 18,4% þátttakenda frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynbundinni áreitni á starfstíma sínum á Alþingi eða í tengslum við starf sitt þar. Kynbundin áreitni mældist mest meðal þingmanna, eða 31,8%, og höfðu hlutfallslega fleiri konur (25%) en karlar (10,4%) orðið fyrir kynbundinni áreitni. Mikill meirihluti þeirra sem beittu kynbundinni áreitni voru karlar, eða rúm 74%. Af þeim 27 þátttakendum sem höfðu upplifað kynbundna áreitni voru 26,9% sem höfðu orðið fyrir henni á síðustu sex mánuðum.

Ofbeldishegðun gagnvart þingmönnum

Í viðtalsrannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og Evrópuráðsþingsins (PACE) frá árinu 2018 var rætt við þingkonur og aðrar starfskonur þjóðþinga um kynjamismunun, áreitni og ofbeldi sem konur á evrópskum þjóðþingum verða fyrir. Umræðurammi með fyrirfram ákveðnum spurningum var hafður til hliðsjónar í viðtölunum. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar voru átta beinar spurningar sem búnar voru til úr rammanum lagðar fyrir alla þingmenn á Alþingi, bæði konur og karla. Alls voru þeir þingmenn sem svöruðu spurningunum 45 talsins. Af þeim höfðu 23,3% upplifað að myndir og/eða ummæli um þau sem höfðu kynferðislegar vísanir eða inntak hefðu birst í fjölmiðlum. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 31,6% kvenkyns þingmanna og 16,7% karla á þingi. Þá töldu 29,5% sig hafa orðið fyrir áreitni, þ.e. hegðun sem er ítrekuð og ógnandi. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 36,8% kvenna og 24% karla á þingi. Tæp 16% þingmanna greindu frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt á Alþingi. Jafnframt greindu 14,6% svarenda frá því að nánum fjölskyldumeðlimum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf sín á Alþingi og tæp 50% töldu að starf þeirra sem þingmenn hefði valdið fjölskyldumeðlimum erfiðleikum í störfum eða námi. Ekki kom fram mikill hlutfallslegur munur á svörum karla og kvenna við síðustu spurningunni.

 Úrvinnsla og eftirfylgni könnunarinnar

Forsætisnefnd ákvað á fundi sínum 13. janúar sl. að stofna jafnréttisnefnd Alþingis. Nefndin er  skipuð þeim Guðjóni Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur af hálfu forsætisnefndar og af hálfu starfsfólks skrifstofu Alþingis sitja í henni Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri og Saga Steinþórsdóttir starfsmannastjóri. Nefndinni er ætlað að ræða eftirfylgni könnunarinnar. Jafnréttisnefnd Alþingis  mun hafa samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis eftir því sem tilefni verður til.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki