Dómsmálaráðherra hefur beint þeim fyrirmælum til Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, að yfirfara og mögulega endurskoða launabreytingar sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri ,Haraldur Johannessen, gerði við tíu yfir- og aðstoðarlögregluþjóna embættisins í haust. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Þessa launabreytingar hafa sætt harðri gagnrýni og mótmælti Lögreglustjórafélagið breytingunum á sínum tíma. Í þessum breytingum felst að lífeyrisréttindi þessara tíu yfirmanna hækkuðu töluvert. Með breytingunum yrðu yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjónar hjá embætti Ríkislögreglustjóra með hærri laun en 7 af 9 lögreglustjórum landsins. 50 yfirvinnustundir eiga samkvæmt samkomulaginu að færast inn í föst mánaðarlaun sem hækkar lífeyrisréttindi töluvert.
Dómsmálaráðuneytið telur að Haraldur hafi óumdeilanlega haft heimild til að gera þessar breytingar en þær megi ekki ganga lengra en markmið stofnanasamninga sem þá voru í gildi. Eins þurfi að skoða hvort að yfirvinnutímana þurfi að vinna og hvort það sé hægt miðað við starfslýsingu og fleiri þætti.
Því hefur ráðuneytið beint þeim tilmælum til Sigríðar að skoða þessar breytingar og eftir atvikum endurskoða samkomulagið.