fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Trúverðug og mannleg frásögn

Bókardómur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 16. nóvember 2017 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ánægjulegt að enn fyrirfinnist rithöfundar á Íslandi sem ekki leita hófanna í sakamálafrásögnum, með fullri virðingu fyrir þeim bókmenntum og höfundum. Á meðal þeirra rithöfunda er Kristín Steinsdóttir sem nýlega sendi frá sér bókina Ekki vera sár. Kristín sem til langs tíma hefur verið á meðal fremstu barnabókarhöfunda landsins, og hlotið hinar ýmsu viðurkenningar, hefur einnig sent frá sér bækur ætlaðar fullorðnum, nú síðast áður nefnda Ekki vera sár.
Í bókinni kynnumst við Imbu, Ingibjörgu, sem loks hefur látið af því verða, þvert gegn vilja eiginmanns síns, Jónasar, að láta af kennslu og fara á eftirlaun. Þar sem Imba stendur á tímamótum í lífi sínu, og börnin uppkomin, þá reikar hugur hennar aftur í tímann, til bernskunnar og alls þess sem henni fylgdi; gleði, sorgar, ónýttra tækifæra og þess sem kynni að hafa orðið en aldrei varð.

En fram undan kann að leynast tímabil nýrra ævintýra – tími nýrra og gamalla drauma sem rætast. Það eru ljón í veginum; eiginmaður Imbu hefur allt aðrar hugmyndir í kollinum. Hann á rætur að rekja í Hvalfjörðinn og ákveður að taka sumarbústað sem þau hjónin eiga þar í gegn. Fyrr en varir eru hjónin komin í fjarbúð; hann í Hvalfirði, hægt og rólega að breytast í náttúrubarn, og hún í höfuðborginni þar sem hjarta hennar slær.
Innan skamms koma í ljós brotalamir sem hugsanlega hafa verið til staðar allar götur síðan Imba og Jónas rugluðu saman reytum.

Samhliða því sem hjónin fjarlægjast hvort annað speglast fortíðin í nútímanum og Imba gerir sér grein fyrir að hún hefur lifað öll sín fullorðinsár á forsendum Jónasar og skynjar að tími er til kominn að standa með sjálfri sér. Spurningin snýst um hvort hún sé fær um það eftir allan þennan tíma. Inn í söguna blandast systkin Imbu, vinkonur og vinir frá æskuárum, en einnig gamlir draugar frá fyrstu hjúskaparárum hennar og Jónasar.

Ekki er laust við að manni finnist sem um sé að ræða raunverulegar persónur og þá ekki síst í því sem snýr að bernsku Imbu. En einnig standa manni nánast ljóslifandi fyrir sjónum Imba sjálf, tvístígandi á efri árum, Jónas, rólegur og heimakær, Gurra, systir Imbu, hálfgert tryppi, og dætur Imbu og Jónasar, andstæðir pólar.

Kristín Steinsdóttir færir þetta uppgjör í orð á hófstilltan máta. Hvergi ber á tilgerð eða uppskrúfuðum stíl og lesandinn er leiddur blátt áfram í gegnum hugarheim Imbu. Tilfinningum eru gerð skil á trúverðugan máta, hvort heldur er reiði, biturð, ást, söknuði eða væntumþykju.

Ekki vera sár er trúverðug og mannleg frásögn af manneskju á krossgötum sem stendur frammi fyrir því að endurskoða lífshlaup sitt á lokametrunum sem þó marka nýtt upphaf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

England: Manchester City í engum vandræðum

England: Manchester City í engum vandræðum
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Ófrjósemisaðgerðum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum í kjölfar þrengri heimilda til þungunarrofs

Ófrjósemisaðgerðum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum í kjölfar þrengri heimilda til þungunarrofs
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði