Steingrímur J. Sigfússon verður þingforseti í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Katrín Jakobsdóttur verði sú stjórn að veruleika. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sagði í morgun að sú stjórn gæti mögulega tekið við á ríkisráðsfundi á fimmtudag. Stjórnarsáttmáli liggur fyrir í megindráttum.
Egill Helgason segir á Eyjunni að sagt sé að samstaða sé um það hjá flokkunum þremur að Steingrímur verði ekki ráðherra en þess í stað forseti Alþingis. Egill segir að orðrómur hafi verið um það að Steingrím hafi langað í embættið.
„Forseti Alþingis er ekki slæmt djobb. Forsetinn nýtur fríðinda sem ráðherrar hafa, hefur meðal annars bíl og bílstjóra. Og eitt enn – forsetinn fær af sér málverk sem er hengt upp í sölum Alþingis. Til að mála eru fengnir sérstakir portrettmálarar,“ segir Egill og bætir við:
„Steingrímur mun semsagt horfa af veggjum þingsins á þingheim framtíðarinnar – á staðnum þar sem hann hefur starfað og talað lengur en gengur og gerist.“