Thomas Fredrik Møller Olsen var í dag dæmdur sekur um hafa orðið Birnu Brjánsdóttir að bana þann 14. janúar síðastliðinn. Hljómar dómurinn upp á 19 ára fangelsi. Er þetta með þyngstu dómum Íslandssögunnar.
Foreldrar Birnu eru Brjánn Guðjónsson og Sigurlaug Hreinsdóttir. Thomas var dæmdur til að greiða Brjáni 4 milljónir en Sigurlaugu 3 milljónir. Sigurlaug kveðst hafa orðið var við það að fólk hafi verið að undra sig á þessu.
„Það eru eðlilegar ástæður fyrir því,“ segir Silla. „Í raun erum við að fá sömu upphæð. Munurinn liggur í útfararkostnaðinum sem var á nafni Brjáns.“ Vill Sigurlaug koma þessu á framfæri svo umræða um þetta vindi ekki upp á sig.
Þá fékk verjandi Thomasar, Páll Rúnar, 21 milljón í málsvarnarlaun.
Málið hefur sem von er, reynst þeim Brjáni og Sigurlaugu afar þungbært og haft djúpstæð áhrif á alla þjóðina. Stöðugar fréttir hafa verið af morðinu, bæði hér heima og erlendis. Sigurlaug og Brjánn segja í samtali við DV að þau treysta sér ekki til að ræða um dóminn á þessum tímapunkti. Segir Sigurlaug að hún muni ekki tjá sig um dóminn. Brjánn kveðst ekki tilbúinn til að ræða niðurstöðuna á þessum tímapunkti.
Það hefur tekið á fyrir foreldra og bróður Birnu að sjá stöðuga umfjöllun um Birnu. Sigurlaug, eða Silla eins og hún er gjarnan kölluð, tjáði sig á Facebook í gær, degi áður en dómur var kveðinn upp. Þar biðlaði hún til fólks og fjölmiðla að hætta að tala um „Birnumálið.“
Sjá einnig: Þetta er Birna – Munið hana svona
Sigurlaug sagði:
„Þetta er ekki mál dóttur minnar, hún er blásaklaus. Þetta er ekki „Birnumálið“. Það er bara grundvallarmisskilningur að setja það í samhengi við fórnarlambið,“ sagði Sigurlaug og bætti við: „Það varð skepna á vegi hennar og þetta er mál skepnunnar!!!“
Fyrr á árinu var Silla í viðtali við DV. Báðum foreldrum er mikið í mun að Birnu sé minnst fyrir þá manneskju sem hún var, sem yndislegrar, ungrar konu, sem var heilsteypt, gefandi, hugmyndarík og lifði skemmtilegu lífi. Silla sagði:
„Birna var alltaf að koma mér á óvart. Hvernig hún hugsaði og sá veröldina. Ég stóð mig oft að því að hugsa um og dást að því hvernig hún lifði lífinu, en ég þurfti stundum tíma til að venjast því. Hún var skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst, alveg frá því að hún fæddist, algerlega að bróður hennar ólöstuðum.“
Þá sagði Brjánn faðir hennar:
„Ég elska hana óendanlega. Hún Birna mín er rosalegur knúsari og fátt jafn yndislegt eins og faðmlagið hennar, enda var hún mér ofarlega í huga þegar ég samdi lagið „Minning“ – ég sá hana alltaf fyrir mér komandi að knúsa mig og sú hugsun tárar mig alltaf.“
Í sömu umfjöllun sagði:
Silla vill að Íslendingar muni eftir Birnu sem fallegum, hæfileikaríkum og góðhjörtuðum húmorista. Stúlku sem þorði að standa á sínu og vildi öllum vel og elskaði heiminn. Þetta er Birna. Munið hana svona.
„Ég elskaði hana svo ótrúlega, ótrúlega mikið. Það sem ég er þakklátust fyrir er að ég var meðvituð um það alveg frá því að hún fæddist,“ segir Silla, móðir Birnu.
„Það er ekkert sem ég gleymdi að taka eftir á meðan hún óx úr grasi. Ég naut þess að vera með þessu fallega ljósi.“