fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Kynning

Stórsveit Reykjavíkur

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Laugardaginn 7. mars 2020 14:00

Mynd: Anna Stark.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í heimi rytmískrar tónlistar á Íslandi skipar Stórsveit Reykjavíkur svipaðan sess og Sinfóníuhljómsveit Íslands gerir í klassískri tónlist. Stórsveitin er fjölmennasti tónlistarhópur landsins á þessu sviði og samnefnari þeirra sem leggja með alvarlegum hætti stund á aðra tónlist en klassíska. Stórsveit Reykjavíkur er með fast æfingaaðsetur í Hörpu að sögn Sigurðar Flosasonar, saxófónleikara og formanns stjórnar hljómsveitarinnar.

Mynd: Anna Stark.

Stórveitin telur allajafna 17 hljóðfæraleikara sem allir eru vel menntaðir atvinnutónlistarmenn, þar af eru nokkrir af fremstu djasstónlistarmönnum þjóðarinnar. „Við höldum að jafnaði 6–8 átta tónleika á hverju starfsári. Þetta er þéttur hópur og endurnýjun er hæg. Þá er þetta hæfileikaríkt og eftirsótt fólk sem tekur þátt í fjölda verkefna utan Stórsveitarinnar. Því er sjaldgæft að við komum öll fram á tónleikum. Þegar svo ber undir fáum við inn staðgengla til þess að hlaupa í skarðið. Því samanstendur hljómsveitin af mun stærri hóp en sautján manns.“

Hljómsveitin var stofnuð í febrúarmánuði 1992. Helsti hvatamaður að stofnun hennar var Sæbjörn Jónsson en hann var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar frá upphafi og til ársins 1999. Þá urðu þáttaskil í rekstri sveitarinnar og síðan þá hefur einkum verið unnið með virtum erlendum gestastjórnendum eða leiðandi fólki í íslensku djasslífi. „Lengi vel voru bara karlar í Stórsveitinni, en við hljómsveitina hefur bæst kona og erum við því um 16 karlar og ein kona. Við værum mjög til í að hafa þær fleiri. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að það hefur verið þannig að fáar konur hafa farið út í þessi hefðbundnu stórsveitarhljóðfæri og þessa músík, en við sjáum að þetta er að breytast og erum spennt fyrir framhaldinu.“

Stórsveit Reykjavíkur hefur á undanförnum árum haldið á fjórða hundrað tónleika víða í Reykjavík sem og á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Þá hefur sveitin gefið út átta geisladiska. Stórsveitin leggur sig eftir breiðum stíl tónlistarlega séð; flytur nýja og framsækna íslenska og erlenda tónlist, en leikur einnig vinsæl eldri verk með vinsælustu söngvurum þjóðarinnar. „Við viljum flytja eins fjölbreytta tónlist og hægt er fyrir alla aldurshópa. Þá hafa jólatónleikarnir okkar t.a.m. verið sérsniðnir fyrir unga áhorfendur. Það spanna fáir tónlistarhópar álíka breidd og Stórsveit Reykjavíkur, frá hinu nýjasta og sértækasta til hins alþýðlegasta.“

Mynd: Mummi Lú.

Stórsveitarmaraþon

„Við eigum eftir að halda tvenna tónleika það sem af er þessu starfsári. Þann 22. mars næstkomandi verðum við með Stórsveitarmaraþon í Hörpu. Þá bjóðum við stórsveitum landsins að koma og spila með okkur á maraþontónleikum. Þetta eru hátt í tíu bönd víðsvegar að af landinu, þá spila skólasveitir, áhugamannasveitir og ýmsir aðrir. Stórsveit Reykjavíkur byrjar að spila í hálftíma og svo tekur næsta band við og spilar í jafnlangan tíma. Svona gengur það koll af kolli. Með þessu viljum við efla stórsveitarstarfið í landinu.“

Glæný íslensk tónlist

„Þann 24. maí munum við halda árlega tónleika okkar, Ný íslensk tónlist, þar sem Stórsveitin flytur glænýtt íslenskt efni. Hægt er að nálgast miða á miðasöluvef Hörpu, harpa.is.“

Mynd: Mummi Lú.

Fjölmargir innlendir og erlendir gestir hafa komið fram með hljómsveitinni á liðnum árum sem einleikarar, einsöngvarar og gestastjórnendur. Þeirra á meðal má nefna Bandaríkjamennina Bob Mintzer, Frank Foster, Dick Oatts, Tim Hagans, Bill Homan, John Fedchock, Greg Hopkins, Andrew D’Angelo og Travis Sullivan. „Við unnum með Mariu Schneider fyrir ekki svo löngu og það var alveg sérlega eftirminnilegt.“

 

Einnig má nefna lykilmenn í djassheimi Norðurlanda svo sem Ole Kock Hansen, Eero Koivistonen, Lars Jansson, Geir Lysne, Helge Sunde, Fredrik Norrén, Jesper Riis, Nikolaj Bentzon, Ulf Adåker, Lasse Lindgren, Daniel Nolgård og Pétur Östlund. Þá hefur Þjóðverjinn Ansgar Stripens einnig unnið með sveitinni. „Nú nýlega héldum við tónleika með Mariu Babtist þar sem hennar tónlist var leikin. Tókust þeir tónleikar með eindæmum vel.“

 

Innlendir stjórnendur hafa m.a. verið Sigurður Flosason, Samúel J. Samúelsson, Þórir Baldursson, Stefán S. Stefánsson, Hilmar Jensson, Össur Geirsson og Kjartan Valdemarsson. Fjölmargir íslenskir söngvarar hafa komið fram með sveitinni í gegnum árin. Þeirra á meðal eru meðal annars Ragnar Bjarnason, Andrea Gylfadóttir, Ellen Kristjánsdóttir, KK, Jón Jónsson, Elly Vilhjálms, Egill Ólafsson, Friðrik Dór, Kristjana Stefánsdóttir og Ragnheiður Gröndal. „Það hefur í það heila verið alveg frábært að vinna með öllu þessu hæfileikaríka fólki víðsvegar að úr heiminum. Það er ómetanlegt að verða fyrir svo fjölbreyttum straumum frá öllum þessum ólíku listamönnum frá öllum heimshornum.“

Mynd: Anna Stark.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum