Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt og voru málin af ýmsum toga. Einn var handtekinn á heimili í Grafarvogi í gærkvöldi en sá er grunaður um heimilisofbeldi. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Fimm menn voru handteknir á athafnasvæði Eimskips við Sundahöfn á öðrum tímanum í nótt. Mennirnir eru grunaðir um húsbrot og voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Skömmu fyrir klukkan 22 var ekið á 13 ára pilt, sem var á vespu, við Gnoðarvog. Ekki er vitað um alvarleika meiðsla piltsins.
Þrír ökumenn voru handteknir í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir þessara ökumanna eru einnig grunaðir um vörslu fíkniefna. Einn ökumaður var handtekinn í gærkvöldi, grunaður um ölvun við akstur auk þess sem hann reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum.
Einn ökumaður var kærður í gærkvöldi fyrir að aka sviptur ökuréttindum.
Ölvaður maður var handtekinn í bifreið við Berjahlíð á tólfta tímanum í gærkvöldi. Hann er grunaður um vörslu fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu. Á ellefta tímanum í gærkvöldi var par handtekið við Smáratorg og vistað í fangageymslu en fólkið var í mjög annarlegu ástandi.
Ungur maður var handtekinn á þriðja tímanum í nótt í Mjóddinni en hann er grunaður um skemmdarverk á leigubifreið. Hann var vistaður í fangageymslu.
Skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki við Síðumúla. Ekki er enn ljóst hvort einhverju var stolið og þá hverju.