Fólk sem lifir á svæðum þar sem mengun er mikil er líklegra til að glíma við minnistap. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn við háskólann í Warwick í Bretlandi en niðurstöðurnar sýna sterk tengsl á milli mikillar mengunar og gleymsku.
Í rannsókninni var fólk sem býr á menguðustu svæðum Englands borið saman við fólk sem býr á hreinustu svæðunum. Niðurstöður sýna að þeir sem búa á menguðustu svæðunum eru með minni á við manneskju sem er tíu árum eldri en þær sem búa á þeim hreinustu. Niðurstöðurnar voru þær sömu í minni rannsókn á rottum og öðrum dýrum sem gerð var fyrst.
Í rannsókninni var fylgst með 34 þúsund enskum ríkisborgurum um allt landið. Allir sem tóku þátt þurftu að leggja tíu orð á minnið í stöðluðu minnisprófi. Var tekið tillit til annarra þátta sem gætu haft áhrif á minni, svo sem aldur, heilsu, menntun og þjóðfélagsstöðu.
„Þegar hann þurfti að muna nokkur orð þá var fimmtíu ára gamall einstaklingur í menguninni í Chelsea á við sextíu ára gamlan einstakling í Plymouth,“ segir prófessorinn Andrew Oswald, einn af þeim sem standa að rannsókninni.
Í rannsókninni er ekki einblínt á mikið minnistap, til dæmis af völdum elliglapa eða Alzheimer.
Menguðustu svæði Englands eru til að mynda í Kensington og Islington. Þau hreinustu eru til dæmis í Devon og Vestur-Somerset.