fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Ástfangnar jómfrúr

Sambúð Söru Ponsonby og Eleanor Butler vakti mikið umtal á sínum tíma

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 29. júní 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á sínum tíma voru Eleanor Butler og Sara Ponsonby kallaðar frægustu jómfrúr Evrópu. Þær ólust upp á Írlandi og voru af aðalsættum. Sara var barn að aldri þegar hún missti foreldra sína og var tekin í fóstur af frænku sinni, lafði Fownes og William eiginmanni hennar. Fæðing Eleanor vakti litla gleði foreldra hennar sem höfðu vonast eftir syni. Hann fæddist örfáum árum síðar og naut mikils ástríkis foreldra sinna, ólíkt Eleanor. Fyrir vikið lagði Eleanor mikla fæð á bróður sinn.

Þegar Eleanor var tæplega þrítug hafði frænka Söru samband við fjölskyldu hennar og spurðist fyrir um það hvort Eleanor vildi hafa auga með Söru sem þá var þrettán ára og í skóla í nágrenninu. Eleanor sem var mjög vel menntuð og hinn mesti bókaormur kenndi Söru frönsku og las með henni skáldsögur og heimspekirit. Þær heilluðust sérstaklega af ritum franskra heimspekinga um hið fábrotna líf í skauti náttúrunnar.

Draumar um sambúð

Árin liðu. Sara var orðin ung kona og William fóstri hennar tók að líta hana girndarauga. Hann gerðist æ áleitnari við hana og gláp hans og káf var Söru til mikils ama. Vinkonurnar Eleanor og Sara höfðu lengi átt sér þann draum að búa saman í litlu húsi úti í sveit. Þær struku saman en náðust á flóttanum. Móðir Eleanor, sem fannst dóttir sín einungis vera til ama, ákvað að senda hana í klaustur, en hún bað ákaft um að fá að kveðja Söru áður. Á fundi sínum lögðu þær á ráðin um aðra flóttatilraun.

Stuttu síðar strauk Eleanor frá heimili sínu og komst óséð inn á heimili Söru, dvaldi í herbergi hennar og faldi sig í fataskápnum við minnsta hættumerki. Þjónustufólk kom loks upp um dvalarstað hennar. Vinkonurnar tilkynntu þá að þær ætluðu sér ekki að skilja og vildu fara saman til Englands. William, uppeldisfaðir Söru, kraup að fótum hennar og reyndi að telja henni hughvarf. Hún svaraði því til að þótt allur heimurinn krypi að fótum hennar myndi hún ekki breyta áformum sínum sem væru að lifa og deyja með fröken Butler. Ættingjar þeirra fórnuðu höndum í uppgjöf.

Vorið 1778 héldu þær á brott saman, Eleanor Butler sem þá var þrjátíu og níu ára og Sara Ponsonby sem var tuttugu og þriggja ára. Með í för var þjónustustúlka Söru. Þær sneru aldrei aftur til Írlands.

Sambúð þeirra Söru og Eleanor vakti mikla athygli.
Umtalaðar konur Sambúð þeirra Söru og Eleanor vakti mikla athygli.

Frægðarmenni í heimsókn

Þær settust að í Wales, í Llangollen, litlu og fremur drungalegu þorpi sem átti eftir að vera heimili þeirra í rúma hálfa öld. Þær leigðu sér hús og gerðu að fallegri og hlýlegri vistarveru. Garðyrkja var eitt helsta áhugamál þeirra og þar ræktuðu þær grænmeti og ávexti. Garðurinn þótti snemma svo eftirtektarverður og fallegur að menn gerðu sér sérstakar ferðir til að skoða hann. Meðan áhugamenn rýndu í plöntur og blóm leituðu sambýliskonurnar skjóls í svefnherbergi sínu.

Friðurinn var að mestu úti árið 1790 þegar dagblaðið General Evening Post gerði sögu þeirra heyrinkunna, vinkonunum til mikillar armæðu. Blaðið gaf í skyn að þær væru lesbíur. Þær litu á samband sitt sem heilagt, nokkuð sem enginn fengi skilið nema þær einar og íhuguðu meiðyrðamál en skorti fjárhagslega burði til þess.

Forvitni umheimsins var vakin á konunum tveimur og árin færðu þeim sífellt meiri frægð. Fjölmargir sáu í lífsháttum þeirra eins konar uppfyllingu hins fullkomna lífs, líf í nánu sambandi við náttúru og víðs fjarri heimsins glaumi. Þær fengu vart frið fyrir gestakomum. Walter Scott var góður kunningi þeirra, það sama átti við um Wordsworth sem orti til þeirra ljóð. Byron sendi þeim áritað eintak af ljóðabók sinni. Amelía, dóttir Georgs III konungs, sendi þeim ætimynd eftir Elísabetu systur sína. Hertoginn af Wellington reyndist þeim einna best en hann sá til þess að breska krúnan sá þeim fyrir lífeyri.

Alls staðar sáust tár

Litli drungalegi bærinn Llangollen var skyndilega orðinn eftirsóknarverður ferðamannastaður vegna tveggja kvenna sem þangað höfðu flutt til að fá að búa saman í friði. Það fór ekki framhjá þeim sem heimsóttu þær að Eleanor var sterkari aðilinn í sambandinu. Hún tók allar meiriháttar ákvarðanir og hafði ætíð orð fyrir þeim. Hún var skapmikil og gat reiðst illilega. Sara var þögul og beygði sig jafnan undir vilja sambýliskonu sinnar.

Síðustu árin sem Eleanor lifði var hún blind og algjörlega háð Söru. Um leið urðu hlutverkaskipti þeirra á milli. Nú var það Eleanor sem varð þögul og undirgefin meðan Sara stjórnaði af hógværð.

Eleanor lést árið 1829 eftir hálfrar aldar sambúð. „Það er nær ómögulegt að lýsa tilfinningum íbúanna,“ skrifaði blaðamaður sem var viðstaddur útför hennar. „Verslanir voru lokaðar, fólk lagði niður vinnu og alls staðar sáust tár á hvörmum. Fólk íklæddist sorgarklæðum og þeir fátæku, sem hún hafði ætíð sýnt örlæti, hörmuðu lát hennar. Sara var svo yfirkomin af sorg að hún treysti sér ekki í jarðarförina. Hún lést tveimur árum síðar.

Vinkonurnar hvíla saman.
Legsteinn Söru Vinkonurnar hvíla saman.

Á legstein þeirra í Llangollan eru rituð, samkvæmt ósk Söru, þessi orð úr Jobsbók: „Þær hverfa aldrei aftur til húss síns og heimili þeirra þekkir þær ekki framar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

„Ég hefði getað misst allt sem ég átti og hún bjargaði mér þegar hún kom í heiminn“

„Ég hefði getað misst allt sem ég átti og hún bjargaði mér þegar hún kom í heiminn“
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma