Vísuðu í reglur um að friðunarsvæði sé 1,5 km frá ósi Norðfjarðarár –
„Ég verð nú að viðurkenna að ég hélt að lögreglan væri að grínast. Við hættum í gær en núna erum við komin aftur niður á bryggju. Ég læt frekar handtaka okkur en lúta þessu,” segir Hrönn Hjálmarsdóttir í samtali við DV.
Í gær var Hrönn stödd niðri á bryggju, svokallaðri Bræðslubryggju, á Neskaupstað að fylgjast með níu ára syni sínum og vini hans að dorga. Skyndilega bar lögreglubíl að garði og var þeim skipað að hætta tafarlaust iðju sinni. „Þeir keyrðu alveg upp að okkur og sögðu okkur að það væri óheimilt að veiða þarna. Ég er hinsvegar fædd og uppalin í bænum og hérna hafa krakkar stundað dorgveiðar á bryggjunni í fleiri kynslóðir. Ég ætti ekki annað eftir en að sjá það bannað,” segir Hrönn og bætir við að drengirnir hafi verið afar undrandi yfir framgangi lögreglunnar.
Hrönn greindi frá atvikinu á Facebook-síðu sinni og spunnust upp fjörugar umræður um málið. Yfirvaldið brást við með því að birta reglur frá Veiðifélagi Norðfjarðarár á Facebook-síðu Lögreglunnar á Austurlandi. Þar segir að fyrir framan ós Norðfjarðarár sé 1,5 kílómetra friðunarsvæði frá fjarðarbotni. Á því svæði sé óheimilt að leggja net eða hafa ádrátt úr sjó.
Að sögn Hrannar er bryggjan um 1 kílómetra frá ósi árinnar og hún hefur ákveðna samúð með sjónarmiði Veiðifélagsins. „Það er ekkert leyndarmál að sumir hafa freistast til þess að reyna að húkka silunginni eða laxinn með þríkrækjum. Það er sennilega ástæðan fyrir því að lögreglan hefur afskipti af okkur. En það er stór og augljós munur sem að felst í því sem þessir aðilar stunda og því að krakkar séu að dorga við bryggjuna. Ég tel að lögin séu okkar megin í þessu máli,” segir Hrönn.
Veiðiskapurinn gekk vel hjá Ara syni hennar, sem er upprennandi aflakló. „Þetta er einn af hápunktum sumarsins hjá honum. Nýlega veiddi hann síðan sinn fyrsta lax í á og það var stór stund. Hérna er hann aðallega að veiða litla þorsktitti sem að fá frelsi strax á ný. Þó að það sé afar ólíklegt þá er ég mest hrædd um að silungur bíti á í sömu mund og lögregluna ber að garði,” segir hún og hlær.
Lögreglan á Austurlandi hefur beðist velvirðingar á atvikinu: