Þórhallur Þorsteinsson segir yfir 20 milljóna framkvæmd á salernishúsi í Vatnajökulsþjóðgarði bruðl með skattpeninga
„Við erum ekki að tala um pýramídana í Egyptalandi.“ Þetta segir Austfirðingurinn Þórhallur Þorsteinsson í viðtali við DV. Hann er afar ósáttur við að áætlaður kostnaður við salernishús í Vatnajökulsþjóðgarði, við Snæfell, sé yfir 20 milljónum. Húsið er enn á framkvæmdastigi en það verður 22 fermetrar með tveimur salernum og stórum palli. Á öðru salerninu verður aðgengi fyrir fatlaða. Þá verður ein sturta, vetrarkamar og lítil geymsla undir húsinu. Þess má geta að Þórhallur situr í svæðisráði austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og er starfsmaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
„Ég sé ekki betur en að kostnaðurinn við hreinlætishúsið fullbúið og frágengnu með teikningum og hönnun verði öðrum hvorum megin við 25 milljónir eða um það bil ein milljón á hvern fermetra. Til samanburðar má geta þess að ný 113 fermetra íbúð með bílastæðiskjallara hér á Egilsstöðum kostar um það bil 30 milljónir.“
Þórhallur er ekki kominn með myndir af hreinlætishúsinu sem byggja á við Snæfell þrátt fyrir að rúmur mánuður sé frá því að hann óskaði eftir öllum gögnum varðandi bygginguna. „Það er alveg í takt við stjórnsýsluna sem er viðhöfð hjá Vatnajökulsþjóðgarði.“
Hann segir að verksamningur vegna hreinlætishússins hljómi upp á 18,1 milljón. En þá á, til að mynda, eftir að reikna út kostnað við teikningar og hönnun á húsinu. „Þetta endar að minnsta kosti einhvers staðar yfir 20 milljónum. Mögulega 25. Það segir sig sjálft að þetta er algjört bruðl með sameiginlega sjóði.“
Þá vill Þórhallur einnig meina að kostnaður fleiri byggingar í þjóðgarðinum hafi farið úr böndunum.
„Má þar nefna landvarðarhús við Blágil, aðstöðuhús og klósett við Langasjó, landvarðarhús við Drekagil, sem mér er sagt að hafi kostað á milli 70–80 milljónir. Að ógleymdri Snæfellsstofu svo maður tali nú ekki um staðsetninguna.“
Þórhallur segir að auðvitað vilji ferðamenn snyrtileg og björt hreinlætishús. „En það þarf ekki að gera minnisvarða um sóun á almannafé,“ segir hann og telur að það sé löngu tímabært að það fari fram óháð úttekt á framkvæmdum og stjórnsýslu í Vatnajökulsþjóðgarði frá stofnun hans.
Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, segir áætlaðan kostnað við salernishúsið, sem er 22 fermetrar að stærð, vera um 20 milljónir eftir kostnaðarmat og útboð. „Þetta eru ekki bara tvö salerni heldur verður sturta þarna og þurrsalernisbúnaður sem verður notaður yfir vetrartímann. Þá er annað salernið sérstaklega búið fyrir hreyfihamlaða sem og öll aðkoma. Þetta verður heilmikið hús. En ekki bara ein klósettseta eða kamar uppi á fjalli. Þetta er miklu meira en það og við erum að leggja inn til framtíðar.“
Þá segir Þórður að taka þurfi í reikninginn að það sé töluvert dýrara að byggja langt uppi á hálendi en í byggð. „Það er viðbótarkostnaður sem leggst ofan á.“
Þórður bendir á að salernið sem núna er við Snæfell í Vatnajökulsþjóðgarði sé úr sér gengið. „Það er búið að þjóna hlutverki sínu í mörg herrans ár og nú er einfaldlega kominn tími á endurbætur.“