Óhætt er að segja að íbúar í Breiðholti skiptist í tvær fylkingar vegna listaverka sem komið hefur verið fyrir í hverfinu. Um er að ræða reiðhjól sem búið er að koma fyrir undir grjóthnullungum.
Það er finnski listamaðurinn Anssi Pulkkinen sem á heiðurinn að hjólunum sem finna má á þremur stöðum í Breiðholtinu. Hjólin eru hluti af sýningunni ÚTHVERFI en titilinn vísar í Breiðholtshverfi sem er fyrsta skipulagða úthverfi Reykjavíkur.
Breiðholtið er fjölmennt og fjölbreytt; þar má meðal annars finna flest einbýlishús í einu hverfi en einnig flestar íbúðir í fjölbýli. Þar er líka hæst hlutfall íbúa af erlendum uppruna.
En hjólin hafa fallið misvel í kramið hjá íbúum Breiðholtsins ef marka má umræður í Facebook-hópi íbúa, Íbúasamtökin Betra Breiðholt. Sumir velta fyrir sér hvað listaverkin hafi kostað, aðrir hvort túlka megi uppsetninguna sem list á meðan aðrir fagna því að fá eitthvað þessu líkt í hverfið.
„Skemmtilegt – list er til að njóta, lyfta andanum og líka til að rífast um,“ segir einn íbúi á meðan annar segir einfaldlega: „Sorry en þetta er ekkert fallegt og ekki list. Skil vel falleg blóm uppsett í munstur, fallegar styttur, málverk og annað en þetta er bara fáranlegt. Og ég vona að fleiri þora að segja þetta upp hátt því ég er nokkuð viss um að margir eru sammála mér.“
Þessari athugasemd svarar Ólafur nokkur. Hann segir: „Ég er sammála þér að þetta listaverk er ekki fallegt en það er allavega skemmtilegt og mjög áhugavert og fær fólk til að ræða um það og pæla í þessu. Það væri ekkert sérstaklega skemmtilegt ef öll list væri eins.“
Annar íbúi segist hafa velt því fyrir sér, þegar hann keyrði fram hjá listaverkinu á dögunum, að sá sem var á hjólinu hljóti að hafa meitt sig. Honum hafi ekki dottið til hugar að þetta væri list. Annar segir að uppsetningin minni á loftsteina sem lentu á reiðhjólafólki.
Einn íbúi segist vera kominn með nóg af þeim sem tuða, kvarta og kveina yfir hlutum sem þessum.
„Er ekki hægt að stofna sérstaka grúppu fyrir nöldrara, tuðara og niðurrifsseggi. Það er ekki hægt að lesa eða skoða nokkurn skapaðan hlut orðið án þess að það sé nöldrað og bölsótast, kvartað og kveinað undan kostnaði og skítkast á opinbert stjórnvald eða listafólk. Þið borgið fyrir þetta rétt eins og aðrir skattborgarar en hlutur hvers og eins er alltof lítill til að fólk hafi efni á að setja sig á háan hest út af smámunum. Hunskist með kvartið þangað sem það á heima,“ segir hann.
Af þessu er ljóst að skoðanir eru skiptar en áhugasamir geta skoðað verkin á þremur stöðum í Breiðholti sem fyrr segir; við Skógarsel á móts við Miðskóga í Seljahverfi, við Seljaskóga á mótum Grófarsels og Hagasels og á mótum Arnarbakka og Ferjubakka þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar.