Í fljótu bragði er ekkert líkt með tölvutæknifyrirtæki og lággjaldaflugfélagi. Samt eru ótrúleg líkindi á milli sögu fyrirtækjanna OZ og WOW en Skúli Mogensen stofnaði bæði. Að þessari niðurstöðu kemst Stefán Einar Stefánsson í bók sinni WOW – Ris og fall flugfélag. Í vissum skilningi eru svo mikil líkindi á milli sögu beggja fyrirtækjanna að eini munurinn felst í því hvað WOW dæmið var miklu stærra. Annar grundvallarmunur kann þó að vera sá að Skúla tókst að endurreisa og selja OZ en Stefán telur að það muni ekki takast hvað varðar WOW eða flugrekstur undir nafni Skúla Mogensen. Framtíðin mun leiða í ljós hvort það mat er rétt.
Fjallað er sérstaklega um þetta í kaflanum „Endurtekur sagan sig?“ sem hefst á blaðsíðu 329. Stefán greinir líkindin á milli fyrirtækjanna niður í sex atriði:
Í fyrsta lagi hafi bæði félögin verið rekin á miklum uppgangstíma á sínum markaði. „OZ var stofnað í upphafi níunda áratugar síðustu aldar þegar heimatölvan og internetið voru að ryðja sér til rúms og sprenging varð í fjölda þeirra leiða sem hagnýta mátti til að auka lífsgæði fólks.“ – Að sama skapi hafi WOW verið stofnað „rétt í þann mund þegar ferðaþjónustan á Íslandi tekur að vaxa nær hömlulaust.“
Í öðru lagi hafi bæði OZ og WOW starfað á mjög sérgreindum og flóknum mörkuðum þar sem Skúli Mogensen hafði enga sérþekkingu. Hann hafði hins vegar einstaka hæfileika til að laða til sín hæfleika- og kunnáttufólk annars vegar í tölvugeiranum og hins vegar í flugrekstri.
„Í þriðja lagi má nefna að Skúli stundaði stöðugan sóknarbolta á báðum sviðum. Saga OZ ber þess vott að aldrei var pakkað í vörn eða reynt að halda í horfinu með það sem þegar hafði áunnist.“ (bls. 331). Það sama mátti segja um WOW: „Flugflotinn óx, vélarnar stækkuðu og ný tækni var hagnýtt til hins ýtrasta, farþegum fjölgaði og fyrirheitin um frekari vöxt urðu æ stærri.“
Í fjórða lagi, segir Stefán, var Skúli seinn að bregðast við því þegar halla fór undan fæti á mörkuðum, bæði í tilviki OZ og WOW. „Þegar OZ hrundi til grunna gerðist það vegna þess að félagið hafði sett nær öll eggin í sömu körfuna, risasamning við símafélagið Ericsson. Áhættudreifingin var lítil sem engin. Og þegar hökt kom á flugmarkaðinn, samfara ofurvaxtaráformum WOW, brást Skúli of seint við varnaðarorðum margra í kringum hann.“
Í fimmta lagi greinir Stefán keimlíkt mynstur í upplýsingagjöf beggja fyrirtækja til fjölmiðla. Á velgengnistímanum voru sífellt birtar fréttir í fjölmiðlum um góða afkomu og vöxt annars vegar OZ og hins vegar WOW. En þegar hallaði undan fæti var skellt í lás – illa gekk að fá upplýsingar. Afar lengi var t.d. beðið með að birta slæmar rekstrarniðurstöður fyrir árið 2017 hjá WOW.
Í sjötta lagi gefst Skúli ekki upp fyrir mótlætinu og reynir að endurreisa sín föllnu félög. Honum tókst með aðstoð Landsbankans að endurreisa OZ, sem var sannkallað kraftaverk, og tókst síðan að selja fyrirtækið fyrir hátt verð. Með þeim fjármunum stofnaði hann WOW. Hann hefur síðan reynt að endurreisa WOW en Stefán telur að honum muni ekki takast það.
Segir að Skúli muni aldrei koma nálægt flugrekstri aftur