Hælisleitendur á Íslandi fengu í dag skilaboð frá Reykjavíkurborg þess efnis að vikulegar greiðslur til þeirra yrðu lækkaðar. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. Segir í póstinum að Reykjavíkurborg hafi endurnýjað samning við Útlendingastofnun og samkvæmt nýjum samningi lækki vikulegar greiðslur til fjölskyldna. Segir jafnframt að borgin harmi þau óþægindi sem þessi breyting mun hafa í för með sér. Vikulegar greiðslur eru 8 þúsund krónur á hvern fullorðinn einstakling, 13 þúsund á hjón og 5 þúsund á hvert barn. Eftir fjórar vikur bætast við vasapeningar sem eru 2.700 á fullorðinn og 1.000 kr. á barn.
Samkvæmt skilaboðunum frá borginni í dag þá átti þessi upphæð að lækka. En þegar RÚV kannaði málið fengust þau svör frá borginni að útsending skilaboðanna hafi verið mistök starfsmanns og ekki standi til að lækka greiðslurnar. Engin skýring hefur fengist á þessum mistökum og málið er allt hið óvenjulegasta.