Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur heldur áfram á fullu fjöri en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is stýrir.
Þátturinn hefur notið mikilla vinsælda en afar áhugaverðir gestir hafa komið í þáttinn.
Gestur þáttarins að þessu sinni er Arnar Þór Viðarsson sem átti magnaðan feril sem atvinnumaður, hann var elskaður og dáður hjá þeim félögum sem hann lék fyrir.
Arnar hefur búið erlendis í 22 ár en er mættur aftur heim. Hann er nú þjálfari U21 árs landsliðsins og var í vikunni ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.
Arnar lék lengst með liði Lokeren í Belgíu en hann samdi upphaflega við félagið frá FH árið 1996.
Það gekk þó erfiðlega til að byrja með hjá Arnari sem ætlaði að semja við lið Genk ári seinna.
Arnar mátti samkvæmt lögum rifta samningi sínum við Lokeren og finna sér nýtt félag en litríkur forseti félagsins var þó ekki of hrifinn af því.
Hann fann smáatriði sem kom í veg fyrir að Arnar mætti skrifa undir hjá Genk og var hann í raun fastur í Belgíu um tíma.
,,Þetta fyrsta tímabil í september/október þá kemur Willy [þjálfarinn] inn og svo í kringum áramótin og eftir það byrja ég að spila,“ sagði Arnar.
,,Ég spila einhverja 13-20 leiki þetta fyrsta tímabil. Þá í fyrsta skiptið er rosalega mikill áhugi fyrir mér. Samningurinn minn var þannig settur upp að ég gat sagt honum upp eftir fyrsta árið og Lokeren líka.“
,,Ég var í fjarnámi þarna og var að klára stúdentsprófið í Verzló. Ég ákvað að rifta samningnum því þetta var bara kúkasamningur þannig lagað.“
,,Ég rifti samningnum og fer heim, klára stúdentsprófið og á meðan á því stendur þá er alls konar áhugi fyrir mér. Genk, Heerenveen og Club Brugge.“
,,Ég skrifa undir fimm ára samning hjá Genk þar sem Doddi Guðjóns er á þeim tímapunkti. Þeir voru nýorðnir bikarmeistarar.“
Eftir að hafa skrifað undir þá blandaði forsetinn umdeildi sér í málið og bað uim risaupphæð fyrir Arnar sem Genk var aldrei að fara að borga.
,,Ég fer svo út 1. júlí og byrja að æfa með Genk, ekkert vandamál þar nema það að svo eru einhver lög og reglur í Belgíu sem forseti Lokeren fann.“
,,Ég var búinn að spila of marga leiki fyrir Lokeren árið áður og ég var í raun búinn að þéna einhverjum þúsundköllum of mikið. Það varð til þess að áhugamannasamningurinn varð að atvinnumannasamningi.“
,,Hann hækkar þá eftir fimm leiki í byrjunarliðinu, þá koma einhverjir þúsundkallar auka. Þeir voru ekki lengi að finna út úr þessu.“
,,Mig minnir að þeir hafi beðið um í kringum milljón evra, 80 milljónir íslenskra króna á þessum tíma fyrir mig. Það gæti verið aðeins minna eða aðeins meira.“
,,Genk var ekki að fara að borga það. Þetta hefði verið stærsta signing í sögu Genk. Ég lenti í smá veseni þar, ég var fastur.“
Forsetinn ætlaði að nýta sér þessa stöðu Arnars og fá eins mikið af peningum fyrir miðjumanninn og hann gat.
Það var undir pabba Arnars komið að redda málunum og náði hann að lokum að róa forseta félagsins niður fékk Arnar að snúa aftur.
,,Forseti Lokeren vildi ekkert fá mig til baka. Ég var búinn að gefa skít í hann og hann ‘got me by the balls’ sko.“
,,Ég var heppinn aftur, þjálfarinn Willy Reynders vildi fá mig til baka og svo er hann karl föður minn svo mikill diplómati og hann fór og reddaði málunum.“
,,Ég fór til Lillestrom og spilaði þar með Rúnari Kristins þar og átti frábæra mánuði, það var rosalega skemmtilegt. Ég var í norsku deildinni líka.“
,,Pabbi var bara í einhverjar 2-3 vikur í Lokeren að díla við forsetann og þjálfarann. Það endar með því að hann róaði sig og tók þá ákvörðun að taka mig til baka. Þá skrifa ég aftur undir nýjan samning við Lokeren sem var þá orðinn fínn samningur.“
,,Þá svona byrjar í rauninni af alvöru þetta Lokeren tímabil.