fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Sara er ákveðin í að verða ekki móðir: „Þreytt á að heyra frá fólki að ég eigi eftir að sjá eftir þessu“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 7. apríl 2019 10:10

Sara Bjarnveig ásamt manni sínum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sara Bjarnveig Bjarnadóttir er þrjátíu og tveggja ára gömul og hefur hún verið búsett ásamt manni sínum í Noregi í tvö ár. Hann starfar sem sendill fyrir bakarí en hún er um þessar mundir á örorkubótum vegna veikinda sem hún hefur glímt við lengi. Frá því að Sara man eftir sér hefur hún alltaf verið á þeirri skoðun að barneignir séu ekki fyrir hana og hefur hún ítrekað upplifað afskiptasemi frá fólki sem segir hana eiga eftir að iðrast þeirrar ákvörðunar. Sara er hins vegar harðákveðin í að verða ekki móðir og hefur jafnvel velt fyrir sér ófrjósemisaðgerð. Fyrir fimm árum greindist Sara með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni, PCOS, sem gerir að verkum að ef hún hygði á barneignir gæti það reynst henni erfitt.

Sara Bjarnveig Telur að móðurhlutverkið henti henni illa.

„Ég er með PCOS þannig að þótt ég vildi verða ólétt þá yrði það mjög erfitt fyrir mig. En ég hef aldrei viljað börn. Mamma sagði mér að frá því að þegar ég var krakki sjálf þá hafi ég alltaf sagt að ég ætlaði ekki að verða mamma. Mér finnst bara fínt að vera þessi skrítna frænka sem fær lánuð börn sem ég get svo skilað,“ segir Sara í samtali við DV.

„Að vera mamma er allt annað og ég held að ef ég þyrfti að vera móðir dagsdaglega þá yrði ég ekki það góð í því hlutverki, vegna þess að til þess að ég geti funkerað í lífinu þá þarf ég ákveðið mikinn svefn og hreyfingu. Ég er með kvíða, þunglyndi, MS, PCOS og vefjagigt og ég þarf ákveðna hluti til þess að geta bara verið ég. Ég veit líka sjálf hvernig það er að alast upp með foreldrum sem eru með krónísk veikindi og ég myndi ekki vilja leggja það á barn. Mér fannst mjög erfitt að horfa upp á mömmu mína vera svona mikið veika. Alltaf að heyra að hún væri veik og að fara til læknis, alltaf að heyra setninguna: „Mamma þarf að leggja sig því að mamma er svo veik, það má ekki vera með mikil læti.“ En hún fékk berklabólgu þegar hún var barn og lungun hennar eru afar slæm. Svo er hún með vefjagigt, hjartasjúkdóm og ýmislegt fleira sem ég get ekki einu sinni talið upp.“

Elskar börn en hefur aldrei viljað vera mamma

Sara segir að veikindi móður hennar og erfiðleika í kringum þau hafi litað æsku hennar og henni fundist það erfitt.

„Ekki misskilja mig, ég elska börn og hef mjög gaman af þeim. En ég hef aldrei upplifað þá tilfinningu að vilja verða mamma. Ég á þó stjúpdóttur sem er ellefu ára og hún kemur til okkar og mér finnst það gott og þykir rosalega vænt um hana.“

Stjúpdóttir Söru er búsett á Íslandi en kemur reglulega til þeirra í nokkrar vikur í senn. Þegar Sara fékk greiningu á sjúkdómnum PCOS upplifði hún létti, en ekki erfiðleika líkt og margar konur í hennar sporum.

„Þetta var léttir fyrir mig, ekki vegna móðurhlutverksins heldur vegna þess að þá gat ég loksins fengið lyf sem gátu minnkað einkennin. Ég fékk aftur á móti að heyra það frá kvensjúkdómalækninum mínum að hann vildi helst ekki setja mig á lyf af því að ég var ekki að reyna að verða ólétt. Þá fengi ég þrjú egglos á ári í staðinn fyrir tvö og það gæti því aukið líkurnar á getnaði. En ég er á plástri, hormónalyfjum sem koma í veg fyrir getnað, og það hefur því ekki áhrif á það. Loksins þegar ég fékk lyf fyrir þremur árum þá fóru einkenni hjá mér að minnka gífurlega. Áður en ég fékk lyf þá hafði ég rosalega sársaukafullar blæðingar og þegar blöðrur sprungu þá var það svo sárt. Síðan var ég útþanin og með rosalega sykurþörf. Ég vaknaði stundum kannski klukkan tvö að nóttu og varð að fá mér gosglas eða súkkulaði. Um leið og ég fékk lyfin þá hætti það og á tveimur árum hef ég misst 25 kíló bara út af lyfjunum og vegna þess að eftir að við fluttum út þá höfum við haft efni á því að kaupa hollan mat. Það er mikill munur á verði á Íslandi og hér í Noregi. Svo er líka mikill munur á heilbrigðiskerfinu hér og á Íslandi.“

Ekki alvöru mæður ef þær ættleiða

Sara segist hafa upplifað mikla afskiptasemi frá karlmönnum vegna þeirrar ákvörðunar hennar að eignast ekki börn. Það hafi komið henni mest á óvart.

„Þegar ég var nítján ára fékk ég að heyra það frá fyrri yfirmanni að ég ætti eftir að sjá eftir þessu. Ég þorði nú ekki á þessum aldri að segja honum að halda kjafti en … Svo eru það líka konur sem eiga börn og finnst það æðislegt að vera mömmur, ásamt eldri konum, frá þeirri tíð þegar það var í rauninni bara skylda að vera mamma, sem skipta sér af þessu. En ég er búin að kynnast konum á mínum aldri sem eru á sama róli og ég og vilja ekki börn. Svo þekki ég líka konur sem vilja ekki ganga í gegnum meðgöngu en langar að ættleiða. Þær fá jafnvel að heyra að þá séu þær ekki alvöru mömmur, en það finnst mér svolítið fáránlegt.“

Sara segir fjölskyldu sína aldrei hafa ýtt á hana í átt að barneignum enda viti þau hversu þrjósk hún sé.

„Mamma sagði að það þýddi ekkert að reyna að breyta mér. Ég hef einu sinni upplifað þá tilfinningu að ég gæti séð eftir þessu. En um leið og ég hugsaði betur út í það þá hvarf hún. Maðurinn minn er sammála mér og hann vissi alveg um þetta þegar við byrjuðum saman, svo hann vissi alveg hvað hann var að fara út í. Hann hefur aldrei reynt að fá mig til þess að skipta um skoðun. Ég hef líka oft heyrt að þessi ákvörðun sé ósanngjörn gagnvart manninum mínum, vegna þess að ég sé ekki að gefa honum tækifæri til þess að verða pabbi en hann er það nú þegar.“

Búa í Noregi Sátt við sína ákvörðun.

Íslendingar forvitnir og afskiptasamir

Sara segist vera orðin þreytt á því að fólk skipti sér af ákvörðunum annarra og að mikill munur sé á Íslendingum og Norðmönnum þegar kemur að þessu máli.

„Ef fólk er ekki að reyna að betrumbæta líf barns, eins og til dæmis að uppræta vanrækslu eða ofbeldi, þá á fólk ekki að skipta sér af. Þegar ég bjó á Íslandi þá gengu sögur um mig þess efnis að ég væri ólétt en það var bara út af PCOS, en áður en ég fékk lyfin þá var ég svo þanin á maganum og leit út fyrir að vera ólétt þannig að ég þurfti alltaf að segja fólki að ég væri ekki ólétt og að ég myndi aldrei verða ólétt,“ segir Sara.

„Það var alltaf eins og ég væri að gera eitthvað rangt fyrir þeirra hönd þegar ég sagðist ekki ætla að eignast börn. Þá var eins og ég væri að segjast ætla að fara út og slátra hvolpum, þetta var svona álíka sjokkerandi fyrir fólk að heyra. Þá sagði ég bara fólki að ég hefði ekki áhuga á því að verða ólétt og í kjölfarið fékk ég mýtuna um að ég ætti eftir að sjá eftir því eða skipta um skoðun. Ég hef reyndar heyrt það frá einni konu sem er að nálgast níræðisaldurinn að henni finnist þetta bara fín ákvörðun hjá mér, hún þekkti fjölmargar konur sem eignuðust börn án þess að vilja það og að það hefði ekki komið vel út fyrir börnin. En eins og ein vinkona mín sagði: „Það er hellingur af börnum í heiminum sem enginn vill. Er ekki betra að reyna að betrumbæta þeirra líf heldur en að búa til nýtt líf?“ Hérna úti í Noregi er ekki mikið talað um þetta, hérna er frekar ýtt á eftir okkur að gifta okkur og kaupa hús. Það er aðeins öðruvísi upplifun og þegar ég hef verið spurð hvort ég ætti börn og hef þá sagt fólki að ég ætli ekki að eignast börn þá er það bara ekki rætt meira. Fólk á Íslandi fer meira að spyrja út í hluti, en Íslendingar eru líka svolítið þekktir fyrir að vera forvitin þjóð, þeir fara meira út í persónulegar spurningar.“

Margir halda að hún þoli ekki börn

Sara hefur velt fyrir sér þeim möguleika að láta taka sig úr sambandi, en hefur hingað til ekki látið verða af því. Hún viðurkennir að móðir hennar hafi annað slagið nefnt það við hana að hún vildi eignast barnabarn frá henni, en segist aldrei hafa upplifað þrýsting.

„Eitt skiptið þá kom ég heim með hvolp og stillti honum fyrir framan pabba og sagði honum að þetta væri eina barnabarnið sem hann myndi fá frá mér og honum fannst það bara fyndið og var bara sáttur við það. En allar systur mínar hafa verið duglegar að fjölga sér og þær langar að vera mömmur, það er allt annað. Við maðurinn minn höfum aftur á móti áhuga á því í framtíðinni að gerast svona stuðningsfjölskylda, sem er algengt hér í Noregi. Þá prófar fólk oft að fóstra barn og sjá hvort það nái að blómstra í þeirra fjölskyldu. Ef það gerist þá ættleiða þau jafnvel barnið. En ég myndi bara vilja halda mig við svona stuðning vegna þess að ég er með MS og ég get því dottið niður í orku og þá koma dagar þar sem ég get ekki gert neitt. Það yrði þá erfitt fyrir barnið að horfa upp á. Ég er orðin virkilega þreytt á því að heyra það frá fólki að ég eigi eftir að sjá eftir þessu eða skipta um skoðun. Svo er ekki samasemmerki á milli þess að vilja ekki eignast börn og að þola ekki börn. Það eru margir sem halda að ég vilji ekki barn af því að ég þoli börn ekki, en það er algjört rugl. Í dag er ég að læra skólabókasafnsfræði svo ég geti unnið með börnum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Allt klappað og klárt – Arne Slot tekur við Liverpool

Allt klappað og klárt – Arne Slot tekur við Liverpool
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hafði furðað sig á liðsfélögum Gylfa – „Loksins“

Hafði furðað sig á liðsfélögum Gylfa – „Loksins“
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Rappari dæmdur til dauða

Rappari dæmdur til dauða
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Í forgangi að styrkja þessar þrjár stöður hjá United í sumar

Í forgangi að styrkja þessar þrjár stöður hjá United í sumar
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Áfall fyrir Chelsea – Fer í aðgerð og spilar ekki meira

Áfall fyrir Chelsea – Fer í aðgerð og spilar ekki meira
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Heitar umræður um subbulegt brot Grétars – „Það er lukka fyrir Adam Ægi að standa ekki í báðar lappirnar“

Heitar umræður um subbulegt brot Grétars – „Það er lukka fyrir Adam Ægi að standa ekki í báðar lappirnar“