

Enn er beðið eftir niðurstöðum úr lífsýnarannsóknum vegna dauða Birnu Brjánsdóttur. Þetta sagði Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við RÚV á mánudag. Thomas Frederik Møller Olsen situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að dauða Birnu.
Umrædd lífsýni voru tekin úr fatnaði og munum sem haldlagðir voru við leit í Polar Nanoq eftir að skipinu var snúið við til Íslands. Að sögn Gríms var Thomas ekki yfirheyrður um helgina og ekki liggur fyrir hvenær hann verður yfirheyrður næst. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rennur út á fimmtudag og þá verður tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á lengra varðhald yfir honum.