fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Ingileif og María vilja útrýma fordómum gegn samkynhneigðum foreldrum – Ræða opinskátt um meðgönguna

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 17. mars 2019 16:00

Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjasta blaði DV er parið María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir í einlægu viðtali um lífið, fordómana, áföllin og ástina. Ingileif gengur nú með annað barn þeirra hjóna sem kom undir með aðstoð frjósemisaðgerðar.

María: „Við fórum í tæknisæðingu en ekki glasafrjóvgun. Það er svona fyrsta skrefið, þá er í raun bara sprautað inn þessu stöffi. Eitthvað sem við hefðum þess vegna geta gert heima en það var fínt að gera þetta svona,“ segir hún og hlær.

Ingileif tekur undir hláturinn og segir: „Já þetta var mjög rómantísk stund. Ég lá þarna á þessum bekk og María spyr mig hvort ég vilji að hún haldi í höndina á mér. Við vorum alveg ótrúlega heppnar. Það voru greinilega bara kjöraðstæður og legið mitt rosalega tilbúið í þetta. Ég er líka búin að vera með baby fever í mörg ár. Svo erum við líka búnar að upplifa þennan hinseginn vinkil á þessu öllu saman. Upp í Livio þar sem við fórum í meðferðina upplifðum við ekki neina fordóma og ekkert neikvætt. En svo höfum við alveg mætt viðmóti eftir það. Við fórum til dæmis í skoðun og ég var spurð hver minn nánasti aðstandandi var. Ég benti auðvitað á Maríu og segi hún. Þá spyrja þau okkur hver okkar tengsl séu og þegar ég segi þeim að við séum hjón þá segir einstaklingurinn við mig: „Bíddu nú við, hvað meinarðu? Eruð þið giftar?“ Ég sagði bara já það er nú það sem það þýðir að vera hjón. Svo við höfum svolítið þurft að útskýra þetta. En við ætlum bara að vera mjög opnar og tala mikið um þetta því að ég held að maður uppræti ekki svona nema að tala um það.“

,,Ég held að margir karlmenn upplifi sig svolítið utangátta í þessu ferli“

Áhugavert að upplifa „pabbahliðina“

María: „Það er líka svolítið áhugavert að vera þeim megin sem ég er núna, hafandi gengið sjálf með barn áður. Nú er ég á þessari „pabbahlið“ og ég held að margir karlmenn upplifi sig svolítið utangátta í þessu ferli. Ég hef alveg tekið eftir því að það er mjög oft sem fólk óskar bara Ingileif til hamingju þrátt fyrir að ég standi við hliðina á henni. Ég held að þetta sé alveg ótrúlega náttúrulegt en ég held að þetta sjónarhorn upplifi rosalega fáar konur. Maður veltir því svolítið fyrir sér hvert hlutverk sitt sé. Þannig að mér finnst mjög áhugavert að vera hérna megin og sjá þetta svona. Ég held að þetta viðmót sem karlmenn upplifi oft geti alveg verið ástæðan fyrir því af hverju margir þeirra segja að það hafi verið erfitt að tengjast barninu og eru kannski ekki alveg jafn „all in“ í hlutverkinu. Ég held að þetta hljóti að vera einhverskonar rót, strax þarna er búið að setja ákveðna gjá á milli. Hún er að ganga með barnið og hún er að verða mamma en ég er meira bara svona að vera með. Mér finnst þetta ótrúlega áhugavert og er alls ekki bitur. Ingileif kemur ekki svona fram og við erum alveg jafn mikið saman í þessu en maður finnur þetta alveg svona lúmskt.“

Segja þær muninn á milli þess að vera móðir og faðir ekki eiga við rök að styðjast og að sjálfsögðu eigi báðir foreldrar rétt á að upplifa allar tilfinningarnar. Segist María ekki tengja við föðurhlutverkið þrátt fyrir að standa þeim megin við línuna.

María: „Þegar ég les um hluti sem beint er til feðra þá tengi ég ekki því ég er ekki að verða pabbi. Ég er að verða mamma. En munurinn er að daginn eftir að barnið fæðist þá þarf ég að fara og fá vottorð fyrir því að ég sé foreldri þess og senda á fæðingarorlofssjóð. Ef að gagnkynhneigt par væri í sömu stöðu og við, væri að eignast barn saman í gegnum tæknisæðingu þá þyrfti karlmaðurinn ekki að fara og gera þetta. Ef fólk er í hjónabandi þá verður hann sjálfkrafa faðir barnsins í öllum skrám. Jafnvel þó þau hafi keypt sæði eða hún hafi haldið fram hjá. Ég þarf hins vegar að sækja sérstaklega um það.“

Fær ekki að vera móðir barnsins

Ingileif: „Svo verð ég skráð móðir barnsins en hún verður skráð foreldri þess, hún fær ekki að vera móðir líka. Það eru allskonar svona litlir hlutir sem eru alltaf að minna mann á að það er enn þá mismunun í kerfinu.“

María: „Ég finn oft að ég fer inn í hausinn á mér og fer að velta því fyrir mér hvort fólk sé að dæma okkur. Það haldi að ég verði ekki jafn mikið foreldri af því að genatískt muni ég ekki eiga hlut í barninu eins og væri alla jafna. Maður þarf bara að passa hausinn sinn af því að ég ætla ekki að láta þetta skemma neitt.“

Ingileif: „Við höfum alltaf passað upp á hvor aðra í þessu. Við pössum okkur á því að ég sé ekki að upplifa mig í einhverju hlutverki og að hún upplifi sig út undan. Við erum saman í þessu ferli og ég sé engan mun á okkur sem foreldrum þessa barns. Við erum báðar alveg jafn miklir foreldrar barnsins og það er algjör firring ef fólk heldur einhverju öðru fram. Þetta er bara eins og hefðbundin meðganga þó svo að María hafi ekki frjóvgað mig.“

„Við höfum alveg syrgt það að geta ekki búið til okkar eigin blöndu“

María hlær: „Já það hefði reyndar verið geggjað. Ég væri alveg til í að sjá kombóið okkar saman. Það er víst verið að vinna í því að finna út úr því hvernig á að frjóvga tvö egg saman, þá fyrst held ég að karlmennskan fari á hliðina.“

Ingileif: „Já þá færi allt á hliðina og allt yrði vitlaust. En við höfum alveg syrgt það að geta ekki búið til okkar eigin blöndu. Líka af því að þetta var fáránlega skrítið og erfitt ferli að velja sæðisgjafa. En ég held að okkur hafi tekist ágætlega upp, það er allavegana barn á leiðinni.“

Sagði frá kynferðisofbeldi á sama ári og hún varð ólétt

Þegar parið hóf sambúð átti María fimm ára gamlan strák, Þorgeir, og segist Ingileif hafa elskað það að hafa fengið að ganga beint inn í stjúpmóður hlutverkið og að fyrir henni hafi það verið mjög náttúrulegt.

María: „Ingileif kenndi mér líka að verða betri mamma. Ég var bara átján ára þegar ég átti hann og var alls ekki tilbúin. Var gengin næstum því átján vikur þegar ég komst að því að ég væri ólétt og þetta kom upp á mjög erfiðu tímabili í mínu lífi. Ég stóð mig alltaf vel, passaði alltaf upp á allt en það var alltaf þetta í hjartanu sem að vantaði upp á hjá mér. Ekki það að ég elskaði hann auðvitað en það var bara þetta, að vera sátt við hlutverkið og hlutskiptið. Á þessum tíma voru allar vinkonur mínar að gera allt aðra hluti og höfðu ákveðið frelsi sem ég hafði ekki. Þegar Ingileif kom inn í líf okkar þá kenndi hún mér að elska þetta hlutverk og ég er orðin miklu betri mamma fyrir vikið. Fullkomlega sátt við sjálfa mig og hlutskipti mín. Hann fæddist ekki alveg í ákjósanlegustu aðstæðurnar þegar hann kom fyrst í heiminn.“

Ingileif: „Hún var að ganga í gegnum málaferli við stjúppabba sinn.“

María: „Já og þetta gerðist allt saman á sama árinu. Ég sagði frá kynferðisofbeldinu í janúar og komst að því að ég var ólétt í júní. Þetta var stórt og erfitt ár. Ég var með áfallastreituröskun á háu stigi og var rosalega veik. Ég faldi það vel, mætti alltaf í skólann og kláraði stúdentsprófið á réttum tíma. Var alltaf fullkomin út á við en var algjörlega dofin og dáin að innan. Þá er maður auðvitað ekki í besta forminu til þess að sinna barni líka. En ég hef lýst þessu þannig að ég lét það fljóta. Ég lét þetta ganga upp og passaði að það myndi ekki bitna á honum.“

Langaði oft ekki til þess að lifa

Ingileif: „Við höfum líka talað um það að Þorgeir hafi veitt henni ákveðin tilgang. Hún þurfti að vakna á morgnanna fyrir hann.“

María: „Já ég veit ekkert hvernig ég hefði orðið ef ég hefði ekki haft hann. Ég þurfti að standa mig og vildi standa mig fyrir hann. Gefa honum gott líf. Þess vegna kláraði ég skólann og fór í háskólann. Ég veit ekki hvort ég hefði endilega komist alla leið þangað ef ég hefði ekki haft hann af því að ég var það veik. Langaði oft ekki til þess að lifa. Þetta var svona tímabil sem að ég sé bara í móðu í dag en var mjög mikilvægur og lærdómsríkur tími. Þess vegna finnst mér í hjartanu rosalega gott að fá annað tækifæri til þess að fara í gegnum þetta ferli á jákvæðu nótunum þegar það er svo ótrúlega velkomið og ég hjartanlega tilbúin í það. Þó svo að ég viðurkenni að hafa verið smá hrædd við það að fara út í annað barn vegna þess að ég á erfiðar minningar. En við erum bara mjög spenntar núna fyrir hlutskiptunum. Ég er auðvitað búin að fara í gegnum tíu ára sálfræði meðferð og hef unnið vel úr mínum málum. Ég held ég hafi alveg náð bata þrátt fyrir að auðvitað komi öðru hvoru bakslög en það er ekkert í líkingu við áður. Þannig að það að Ingileif hafi komið inn í líf okkar gerði held ég mig og Þorgeir bæði að betri manneskjum. Það var ekki bara hún sem fékk einhvern bónus.“ Segir María og dáist að sinni konu.

Ingileif: „Það er auðvitað allskonar sem að María upplifði í gegnum sitt fyrra ferli sem að við þurftum alveg að fara yfir áður en að við fórum út í þetta. Við líka róuðum líf okkar niður í fyrra af því að ég greindist með flogaveiki svo ég var svolítið þvinguð til þess að taka lífið á annað tempó. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei verið mikill djammari að þá hef ég samt alltaf sokkið mér aðeins of mikið í vinnu og skóla og haft mikinn metnað fyrir því. Ég keyrði mig svo út á síðasta ári og þá vorum við þvingaðar til þess að róa okkur niður. Við hættum báðar að drekka og höfum verið rosalega rólegar síðustu mánuði. Sumir segja að það sé leiðinlegt og að við séum orðnar miðaldra en ég held að við séum ennþá bara skemmtilegar þrátt fyrir að hafa aðeins þurft að róa tempóið.“ Segir Ingileif og þær skella báðar upp úr.

,,Þrátt fyrir að við séum samkynhneigt par þá þýðir það ekki að við séum slæmir foreldrar“

Útiloka ekki ættleiðingu í framtíðinni

Segist parið ekki útiloka þann möguleika að ættleiða barn í framtíðinni en að staðan sé nú þannig að samkynhneigðum pörum hérlendis sé nánast ógert að fá barn.

María: „Ísland heimilar ættleiðingar samkynhneigðra eða hinsegin fólks en flest öll lönd úti í heimi heimila ekki ættleiðingar til samkynhneigðra á móti. Þannig að þetta er bara „dead end“ einmitt núna. Svo er ættleiðing yfirhöfuð líka erfið fyrir gagnkynhneigt fólk. Þetta tekur rosalega langan tíma og tekur mikið á fólk. Við útilokum ekkert en þetta er bara hægara sagt en gert af því að við erum tvær konur.“

Ingileif: „Það er alveg ótrúlega sturlað af því að ég er alveg örugg með það að við eigum alla ást í heiminum. Við eigum gott heimili og allar aðstæður okkar eru upp á tíu. Það er fullt af fólki sem að á börn sem er í slæmum aðstæðum. Þrátt fyrir að við séum samkynhneigt par þá þýðir það ekki að við séum slæmir foreldrar. Þess vegna líka gerir það okkur svo sárar þegar umræðan fer út í það að vegna þess að við séum samkynhneigðar þá eigum við ekki rétt á því að eignast börn. Maður sér oft svona komment á netinu: „Hvað eruði að gera barninu með því að alast upp hjá ykkur?“ Við eigum frábært heimili og fullt af ást að gefa. Þetta er svo mikil hugsana villa hjá fólki, að gera ráð fyrir því að af því að við séum tvær konur að þá séum við ekki hæfar til þess að vera foreldrar. Það er mjög sorglegt að sumt fólk hugsi þannig. Við vitum alveg hvernig foreldrar við erum og erum öruggar í því hlutverki.“

María: „Það er löngu búið að ákveða það að normið sé karl og kona, vissulega og við erum undantekningin. En mælikvarðinn á það að vera gott foreldri eða geta gefið gott heimili snýst ekki um það hvort að það séu karl og kona á heimilinu. Það snýst um það hvort þú gefir góðan ramma, ást, umhyggju og skýra leiðsögn. Það hefur ekkert með kynið að gera. Það eru til frábærir pabbar og frábærar mömmur, það eru líka til ömurlegar mömmur og ömurlegir pabbar.“

Allar fyrirmyndir mikilvægar

Þegar Ingileif og María tilkynntu fólki að von væri á viðbót við fjölskylduna fengu þær strax skilaboð frá óviðkomandi aðilum um hvernig þær yrðu að ala barnið upp.

Ingileif: „Við fengum strax skilaboð þess efnis að ef þetta yrði strákur að þá yrðum við að hafa einhverja mjög sterka karlkynsímynd í lífi barnsins sem fengi að hitta barnið reglulega. Þetta fannst okkur skringilegt. Við þekkjum auðvitað fullt af frábærum mönnum sem að munu koma til með að vera inni í lífi þessa barns en ef að það á að vera einhver fókuspunktur þá getur það líka haft skringileg áhrif. Ég held einmitt að af því að strákurinn okkar hefur svona mikið af kvennkynsfyrirmyndum í sínu lífi að það hafi gert það að verkum að hann er mikið í tengslum við sínar tilfinningar. Það gerir hann að frábærum einstaklingi og ég er alveg sannfærð um það að við getum alveg séð um þetta uppeldi. Auðvitað eru allar fyrirmyndir mjög mikilvægar en þetta er skrítinn hugsanagangur.“

María: „Já strákurinn okkar er einmitt ótrúlega öruggur með sínar tilfinningar, er það vont af því að hann er karlmaður? Erum við að brengla hann sem karlmann af því að hann er traustur með sínar tilfinningar? Þetta er svolítið gamaldags hugsun og í raun og veru vandinn við kynjaskiptinguna. Hvað með börn sem eru alin upp af einstæðri móður? Eða eiga ömurlegan pabba? Ég held að það sé bara mjög gott að eiga fyrirmyndir á mörgum stöðum. Það er bara fyndið að þetta sé svona fyrsti varnaglinn sem er settur á okkar uppeldi.“

Sjá einnig: Hjónin María og Ingileif í ítarlegu viðtali: „Við eigum öll 100% tilveru rétt“

Vilja gefa skít í normið

Bæði Ingileif og María hafa verið talsmenn þess hve fyrirmyndir séu mikilvægar í lífi fólks og telja þær ástæðu þess hve seint þær komu út úr skápnum megi meðal annars rekja til þess að þær sjálfar hafi ekki átt neinar fyrirmyndir til þess að spegla sig í.

Ingileif: „Fyrirmyndir eru mjög mikilvægar. Þetta norm almennt, það er líka kannski vandinn. Af hverju er alltaf verið að ganga út frá einhverju normi? Allt sem er eitthvað út fyrir það er svo talið afbrigðilegt. Af hverju þarf alltaf að vera að gera ráð fyrir þessari beinu braut og svo ef þú ferð út af henni þá ertu eitthvað skrítinn.“

María: „Ég held meira að segja að flestir séu ekki á beinu brautinni. Það er stóri sannleikurinn, normið er ekki til. Þeir sem eru á „beinu brautinni“ eru líka alltaf að upplifa eitthvað. Það þurfa allir að takast á við eitthvað. Það er svo mikil pressa sem að fylgir því að hafa þessa ímynd um hið „eðlilega.““

Ingileif: „Við eigum bara að gefa skít í þetta norm og viðurkenna það að við erum öll mismunandi og það er frábært. Við eigum að fagna því að eiga allskonar fyrirmyndir sem að eru svona ólíkar. Það er það sem gerir okkur, að okkur. Það væri heldur ekkert skemmtilegt ef að við værum öll eins og að engin mætti vera neitt öðruvísi. Þetta norm skemmdi fyrir okkur báðum í menntaskóla. Við vorum báðar að reyna að þröngva okkur inn í einhvern kassa sem okkur leið eins og við þyrftum að vera inn í af því að umhverfið sagði okkur það. Okkur langar rosalega mikið að fólk og ungir krakkar geti fagnað því hvað við erum öll ólík og fundist það bara frábært. Hætta að reyna alltaf að niðurlægja annað fólk og hætta að búa til brandara á kostnað annara. Ef að við gætum bara öll hjálpast að sem samfélag að uppræta þetta þá væri það frábært. Þá erum við sáttar. Þetta er okkar markmið í lífinu.“

Þú varst að lesa hluta úr helgarviðtali DV. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Í gær

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Í gær

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“