fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Hjónin María og Ingileif í ítarlegu viðtali: „Við eigum öll 100% tilverurétt“

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 15. mars 2019 15:00

Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir eru mörgum Íslendingum kunnar. Báðar hafa þær verið ötulir talsmenn fyrir baráttu hinsegin fólks hérlendis, verið áberandi í fjölmiðlum sem og samfélagsmiðlum í gegnum störf sín og aktívisma ásamt því að taka að sér talskonu hlutverk verðugra málefna.

Blaðakona kíkti í heimsókn til fjölskyldunnar á björtum laugardegi, fékk að knúsa nýjasta fjölskyldumeðliminn hundinn Míló og ræddi við þær um lífið, áföllin, fordómana og meðgönguna en Ingileif gengur nú með annað barn þeirra hjóna.

Eru báðar með mikla réttlætiskennd

Ingileif: „Við erum í grunninn mjög líkar en með mismunandi áhugamál. Erum alveg nákvæmlega eins innréttaðar, það er eiginlega pínu fyndið. En við höfum bara svo svipaða sýn á lífið og svipuð grunngildi. Erum með brjálaða réttlætiskennd og viljum gera gott, skilja eitthvað gott eftir okkur. Þannig að við erum svolítið svipaðar en með hæfileika á mismunandi sviðum. Ég er ekki á leiðinni í pólitík og María er ekki á leiðinni að syngja,“ segir Ingileif og hlæja þær báðar að því.

María: „Já ég geri öllum greiða með því. Við pössum okkur líka að lyfta hvorri annarri upp og höfum aldrei staðið í vegi fyrir draumum hvorra annarrar. Ef við höfum fundið fyrir því að við séum að fara út af brautinni þá tökum við svokallaðan stöðufund og Ingileif sparkar í rassinn á mér og ég henni. Það er rosalega gott að vera í þannig sambandi því það er engin samkeppni heldur samstaða. Finnum okkar braut og það þarf alls ekki að vera sama brautin.“

„Börn fæðast ekki með fordóma“ / Ljósmynd: Hanna

Börn fæðast fordómalaus

Þegar María og Ingileif kynnast var Þorgeir sonur Maríu úr fyrra samband fimm ára gamall. Segja þær hann aldrei hafa pælt neitt sérstaklega í því að mæður hans séu lesbíur enda fæðist börn fordómalaus.

María: „Börn fæðast ekki með fordóma og ef maður kynnir þeim fyrir fjölbreytileikanum þá kippa þau sér minnst upp við þetta. Svo finnst honum líka stórfurðuleg tilhugsun að ég hafi einhvern tíma verið með karlmanni. Það finnst honum óeðlilegt.“

Ingileif: „Eins og með Þorgeir, mamma hans hafði átt kærustu þegar hann var pínu lítill og svo eignast hún aftur kærustu og honum fannst ekkert óeðlilegt við það. Þegar þau alast upp við eitthvað þá skiptir það þau engu máli. En svo var fullt af krökkum þegar hann byrjaði í skóla sem að voru ekki alveg að skilja þetta. Hann hefur sem betur fer alltaf svarað því mjög vel og okkur finnst okkar fjölskylda alveg jafn eðlileg og allra annara, enda er hún það. Hann hefur líka alltaf verið stoltur af því sem hann á. Það hafa komið upp aðstæður þar sem verið er að ræða hinseginfræðslu og ákveðnar týpur fara upp á afturlappirnar og vilja meina að það sé verið að kenna börnum einhverja óeðlilega lifnaðarhætti en við höfum alltaf bara talað um þetta. Það eru í öllum skólum einhver aðili sem er hinsegin eða á hinsegin fjölskyldu. Þannig að því fyrr sem við segjum börnunum að það sé í lagi að eiga allskonar fjölskyldur því auðveldara verður það fyrir þau. Fyrir honum var þetta aldrei neitt vandamál en fyrir hinum börnunum var það það. Og það er alveg eðlilegt þegar í öllum teiknimyndum og bókum eru bara prinsinn og prinsessan. Það er aldrei gert ráð fyrir öðru en því fjölskyldumynstri. Í barnabókum er alltaf þetta gagnkynhneigða norm sem gengið er út frá, að við séum öll gagnkynhneigð þar til annað kemur í ljós og því þurfum við að „koma út úr skápnum“. Við höfum alltaf í gegnum okkar fræðsluvettvang talað fyrir því að það skiptir engu máli hvern við elskum, hvernig við lítum út eða hvernig við skilgreinum okkur. Við eigum öll 100% tilverurétt. Það er ekki verið að segja neitt sem er hræðilegt, það er bara verið að tala um mismunandi fjölskylduform.“

Hægt er að lesa viðtalið við Ingileif og Maríu í nýjasta blaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki