fbpx
Sunnudagur 09.nóvember 2025
Eyjan

Eins og að reyna að troða tannkremi aftur í túbu

Egill Helgason
Föstudaginn 21. desember 2018 15:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er örugglega á gráu svæði að hljóðrita það sem fólk segir á veitingahúsum og dreifa því. En við lifum  í veruleika þar sem við getum búist við að flest sem við segjum og gerum sé tekið upp og það jafnvel notað eða birt. Að mörgu leyti er þetta skelfileg framtíðarsýn. Við höfum líka sjálf afhent yfirráðin yfir svo mörgu í einkalífi okkar – meðal annars til alþjóðlegra auðhringa á borð við Facebook og Google.

Þekkt fólk er ansi viðkvæmt gagnvart þessu. Það má jafnvel tala um frelsisskerðingu í því sambandi. Það getur alltaf búist við því að einhver sé að mynda eða hljóðrita, hvenær sem því verður á í messunni. Og eins og veruleikinn er í dag í netheimum er í raun afar lítið við því að gera. Það sem hefur einu sinni farið út á alnetið verður ekki tekið þaðan aftur.

Það fór til dæmis illa með orðspor Emmanuels Macrons um daginn þegar náðist af honum mynd þar sem hann skammar strákpjakk fyrir að kalla sig Manu en ekki Monsieur le President. Macron varð afkáralegur fyrir vikið. Bara þetta litla myndskeið olli honum ómældum skaða.

Eins er það með sexmenningana sem sátu að drykkju á Klaustri eins og frægt hefur orðið. Þau voru á stað þar sem allur almenningur getur haft aðgang – og hefðu mátt vita að þá þarf maður að gæta að því sem maður segir og gerir. Kjörnir fulltrúar, fulltrúar fólksins, þurfa að sætta sig við enn meiri grannskoðun en aðrir. Þar með er ekki sagt að sjálfsagt sé að öllum orðum þeirra og gjörðum sé útvarpað – en svoleiðis er hinn óburðugi heimur hinnar nýju tækni sem við lifum í.

Í raun eigum við eftir að gera upp ótalmörg siðferðisleg álitamál sem fylgja internetinu og því að við erum öll alls staðar með í höndunum tæki sem safna upplýsingum alveg linnulaust og geta náð allt frá miðju veraldarinnar út í ystu horn. Tæknin hefur í raun verið svo ný og heillandi að við höfum verið of löt til að hugleiða þetta að marki.

Málarekstur Miðflokksmanna eftir að allt er löngu komið út á netið er býsna fjarstæðukenndur, svona dálítið eins og að reyna að troða tannkremi aftur ofan í túbu. Skaðinn er löngu skeður og þetta gerir ekkert annað en að draga málið á langinn. Dómskerfið getur ekki gert neitt sem breytir þessu. Héraðsdómur vísaði málarekstrinum frá nánast með þjósti. „Slíkar kenningar og vangaveltur verða þó að mati dómsins að byggjast á einhverju öðru en því að hlutaðeigendur telji þetta eða hitt líklegt án þess að það sé rökstutt sérstaklega og með afmörkuðum hætti hvers vegna slíkar grunsemdir séu uppi,“ sagði í úrskurðinum.

Það voru ekki lögð fyrir dóminn nein gögn eða vísbendingar – aðeins getgátur um að málið hefði getað verið svona eða hinsegin og þá hugsanlega partur af einhvers konar samsæri. Þess var meira að segja krafist að lagt yrði hald á myndefni úr fórum Dómkirkjunnar – sem er ekki til.

Einhvern veginn er erfitt að koma því heim og saman. Hópur fólks fer á krá, þetta er ekki fundur sem er boðað til opinberlega með fyrirvara. Nokkrir úr hópnum missa stjórn á drykkju sinni og tala svo gáleysislega að skömm er að. Samsætið dregst mjög á langinn, stendur í marga klukkutíma. Hver hefði í fyrsta lagi átt að hafa vitað af því sem til stóð og í öðru lagi að geta séð fyrir að samræðurnar og drykkjan hefði þróast svona – að menn yrðu svo ölvaðir og stóryrtir?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Tók bara utan um stefnuvottinn og þakkaði honum fyrir að koma með bréfið

Reynir Traustason: Tók bara utan um stefnuvottinn og þakkaði honum fyrir að koma með bréfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Árvakur vill kaupa fjölmiðla Sýnar

Orðið á götunni: Árvakur vill kaupa fjölmiðla Sýnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýir lánaskilmálar í kjölfar hæstaréttardóms stórkostlegt tækifæri fyrir Seðlabankann

Nýir lánaskilmálar í kjölfar hæstaréttardóms stórkostlegt tækifæri fyrir Seðlabankann