Endurvinnslan fór að mestu fram í Henan og Hubei héruðunum í Kína. Lögreglan lagði hald á rúmlega 50.000 kassa af smokkum. Athafnamennirnir seldu smokkana aðallega á hótelum, stórmörkuðum og í sjálfsölum um allt land.
Kínverskir fjölmiðlar hafa eftir talsmanni lögreglunnar að aðstæður á pökkunarstöðunum hafi ekki verið góðar. Hreinlæti hafi verið ábótavant og aðeins um lágmarksaðstöðu að ræða. Hann sagði að lögreglumenn hafi séð athafnamennina blanda smokkunum saman við silíkonolíu í fötu áður en þeir pökkuðu þeim.
Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um þær heilsufarslegu hættur sem geta fylgt svona iðnaði. Það að sumir smokkanna hafi verið notaðir getur þýtt að á og í þeim hafi verið bakteríur sem valda kynsjúkdómum. Þá er ekki tryggt að ekki séu göt á smokkunum.
Samkvæmt frétt Singapore Today Online eru smokkar meðal þeirra vara sem mest eru falsaðar og seldar í Kína.
Í febrúar lagði lögreglan hald á tvær milljónir falsaðra Durex og Okamoto smokka í Yunchen héraðinu. Kínverskir fjölmiðlar segja að frá 2014 hafi 10 álíka mál komið upp og hafi þeir sem voru sakfelldir í þeim hlotið allt að fjögurra ára fangelsisdóma.