fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Varkári vágesturinn

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 9. september 2018 21:00

Gekk snyrtilega frá Þegar Yvan Keller var búinn að athafna sig var engin verksummerki að sjá.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aldraðar, einstæðar konur voru fórnarlömb Frakkans Yvans Keller. Í húmi nætur lét hann til skarar skríða og þá helst þegar rigndi. Þegar hann hafði fundið inngönguleið í hús kvennanna hófst hann handa, hægt og hljótt.

Yfirleitt nýtti hann sér opnanlega glugga og aldrei beitti hann ruddalegum aðferðum á borð við að brjóta rúður eða þvinga upp glugga eða hurðir. Yvan hreinlega skrúfaði lausa gluggarammana og gerði það svo fagmannlega, að ekki var á sjá eina einustu rispu eða annað sem bent gæti til innbrots.

Kæfðar í svefni

Eftir að inn var komið lá leið Yvans að svefnherberginu. Hann hafði unnið heimavinnu sína og vissi sem var að öldruð kona var eini íbúi hússins. Hljóðlaust fór Yvan inn í svefnherbergið, tók þar púða eða teppi og lagði yfir vit gömlu konunnar, sem svaf svefni hinna réttlátu, og kæfði hana.

Að þessu loknu hófst hann handa við að finna fjármuni í íbúðinni.

Lagaði til eftir sig

Kerfisbundið fór Yvan yfir íbúðina og var enginn staður undanskilinn, hvort sem það var í kjallara eða á háalofti. Þegar hann taldi sig hafa komist yfir allt það fé sem væri að finna fór hann aftur inn í svefnherbergi.

Þar lagaði hann til, slétti sængina og gekk úr skugga um að hvergi væri að sjá krumpu eða brot sem vakið gæti grunsemdir um glæp. Hann fór út sömu leið og hann kom inn, skildi þar við allt eins og hann kom að því. Hann jafnvel strauk af glugganum áður en hann hvarf út í nóttina með ránsfeng sinn.

Þrjú fórnarlömb við sömu götu

Þegar komið var að konunni látinni í rúmi sínu var það úrskurður læknis að hún hefði látist af eðlilegum orsökum, ekki léki nokkur vafi á því.

Yvan fór í það minnsta inn í átta hús með fyrrgreindum hætti og sömu afleiðingum. Í öll skiptin varð niðurstaða læknis á sama veg. Merkilegt nokk þá voru þrjú fórnarlamba Yvans konur sem bjuggu í innan við 100 metra fjarlægð hver frá annarri, við sömu götu í þorpi sem aðeins taldi 1.000 íbúa.

Rue Basse
Þrjár aldraðar konur voru myrtar heima hjá sér við þessa götu.

Hvað sem niðurstöðu læknis leið varðandi dánarorsök þá vakti það undrun ættingja kvennanna að ekkert fé væri að finna á heimilum þeirra.

Yvan handtekinn

Umrædd þrjú morð voru framin árið 1994 í Alsace í Frakklandi og þá áttu eftir að líða tólf ár áður en upp komst um Yvan og ljósi varpað á illvirki hans.

Þannig var mál með vexti að Yvan hafði verið svonefndur nýaldarferðalangur og samferðamenn hans fengu veður af því sem hann aðhafðist í skjóli nætur. Í september árið 2006 höfðu þeir samband við lögregluna og Yvan var handtekinn í borginni Mulhouse í Austur-Frakklandi. Þar viðurkenndi hann að hann væri hljóðláti morðinginn.

Grunaður um tugi morða

Sagðist Yvan vera innbrotsþjófur að atvinnu og að hann hefði myrt átta konur, sem hann mundi eftir. Lögreglan vildi reyndar bendla hann við ívið fleiri morð, um það bil 30 talsins, sem framin höfðu verið í Alsace í Frakklandi, Sviss og Þýskalandi.

Til þess kom þó ekki, einfaldlega vegna þess að 26. september, fjórum dögum eftir að hann var handtekinn, hengdi Yvan sig í fangaklefa sínum. Við sjálfsvígið notaði hann skóreimar. Áður hafði Yvan þó lýst fyrir lögreglunni aðferðum sínum við innbrotin og með hvaða hætti hann hafði sent fórnarlömb sín yfir móðuna miklu.

Dómhúsið í Mulhouse
Síðasti viðkomustaður Yvans Keller.

Fyrsti fangelsisdómurinn

Yvan Keller hafði fyrst fengið smjörþefinn af fangelsi árið 1984 þegar hann fékk tíu ára dóm fyrir vopnað rán. Eftir sjö ára afplánun gat Yvan um frjálst höfuð strokið en nokkuð ljóst að betrun hans var takmörkuð.

Einn ferðafélaga Yvans úr nýaldarkreðsunni hafði tvisvar samband við lögregluna og vakti máls á þeim grunsemdum sínum að Yvan léti sér ekki nægja að ræna fórnarlömbin. Sá hafði verið undir stýri á flóttabíl tvisvar eða þrisvar sinnum og hafði staðið í þeirri meiningu að um einföld innbrot hefði verið  að ræða.

Árangurslausar ábendingar

Umræddur vinur hafði fyrst haft samband við lögregluna árið 1993. Lögreglumaðurinn sem tók við ábendingunni sendi hana rétta boðleið en ekkert gerðist. Árið 2000 hafði vinurinn aftur samband við lögregluna en ekkert kom út úr því. Síðar hafði vinurinn á orði að „það væri engu líkara en Yvan ætti í sérstöku sambandi við dómsvaldið.“

Í júní 2003 fékk lögreglan enn eina ábendingu um vafasaman starfa Yvans. Sá sem þá hafði samband við lögregluna var bróðir Yvans og sagðist gruna að Yvan hefði framið nokkur morð á innbrotaferli sínum. Sú tilkynning leiddi ekki til neins.

Óupplýst morð

Sem fyrr segir taldi lögreglan að Yvan kynni að hafa átt hlut að máli í fjölda annarra óupplýstra morða. Eftir að hann hengdi sig í varðhaldi sagði háttsettur rannsóknarlögreglumaður: „Við stöndum nú frammi fyrir ótrúlega mikilli vinnu, af fordæmalausri stærðargráðu. Við þurfum að skoða dauða allra kvenna yfir 70 ára aldri, síðastliðin 15 ár og komast að raun um hvort dauða þeirra bar að með eðlilegum hætti eða hvort þær voru myrtar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Þetta er upphæðin sem Liverpool greiðir fyrir Slot

Þetta er upphæðin sem Liverpool greiðir fyrir Slot
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Hafði furðað sig á liðsfélögum Gylfa – „Loksins“

Hafði furðað sig á liðsfélögum Gylfa – „Loksins“
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða