fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Útboð á strætóskýlum kært – Færri skýli í úthverfum

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Mánudaginn 13. ágúst 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vor fór Reykjavíkurborg í útboð vegna uppsetningar og rekstrar strætóbiðskýla sem notendur Strætó í Reykjavík munu nota daglega víðs vegar um borgina næstu 15 ár. Útboðið hljóðaði upp á uppsetningu og rekstur á allt að 400 biðskýlum en að lágmarki 210 biðskýli. Ekkert fyrirtæki tók þátt í útboði Reykjavíkurborgar og fór þá vinna af stað innan borgarinnar í að hafa samband við fyrirtæki sem hefðu sýnt útboðinu áhuga og ræða við þau. Eftir þá vinnu var gerður kaupsamningur við fyrirtækið Dengsa ehf. og hljóðaði sá samningur upp á rekstur 210 biðskýla víða um borgina. AFA JCDecaux Ísland, sem hefur rekið biðskýli í Reykjavík síðan 1998, hefur nú kært samninginn til kærunefndar útboðsmála hjá fjármálaráðuneytinu.

Samkvæmt kærunni er þess krafist að samningurinn verði lýstur óvirkur, að Reykjavíkurborg verði að gera nýtt útboð ásamt því sem þess er krafist að skoðuð verði möguleg skaðabótaskylda borgarinnar gagnvart AFA JCDecaux Ísland. Í kærunni efast lögfræðingur, sem fer með málið fyrir hönd AFA JCDecaux Ísland, um fjárhagslega burði Dengsa ehf. ásamt því að benda á mögulegt reynsluleysi stjórnenda móðurfélags Dengsa ehf. á rekstri og uppsetningu biðskýla. Einnig telur kærandi að slegið hafið verið af kröfum útboðsins við gerð kaupsamningsins við Dengsa ehf.

Í samtali við DV vísaði Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboards ehf., móðurfélags Dengsa þessum atriðum á bug. Hann sagði að fjárhagsstaða fyrirtækisins væri góð og að fyrirtækið hefði staðist allar kröfur útboðsins. „Við gerum okkur grein fyrir því að svona verkefni kostar mikla peninga og þá þurfa hluthafarnir að auka eigið fé fyrirtækisins, sem verður að sjálfsögðu gert eftir að verkefnið er farið af stað.“ Hann segir einnig: „Dengsi er búið að vera í rekstri á þessum markaði í yfir 20 ár. Fyrirtækið setti upp flest öll flettiskilti á landinu og að reka svona flettiskilti allan þennan tíma tel ég vera gífurlega reynslu.“

 

560 stoppistöðvar í Reykjavík – þar af 182 biðstaurar

Eins og áður kemur fram munu 210 biðskýli verða sett upp af Dengsa ehf., en afgangurinn af biðstöðvum í Reykjavík verður rekinn af Reykjavíkurborg. Í dag sér borgin um rekstur á 231 biðskýli og 182 biðstaurum. Margir notendur almenningssamgangna í Reykjavík hafa kvartað undan því að þurfa bíða eftir strætisvögnum án þess að hafa skýli til að verjast veðri og vindum.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við DV varðandi fjölgun strætóskýla: „Það er náttúrlega planið. Áætlun er í gangi um að útrýma biðstaurunum en þetta verður tekið í skrefum.“ Samkvæmt skýrslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, árið 2015, kemur fram að heildarkostnaðurinn við að breyta öllum biðstaurum í biðskýli sé 273 milljónir króna. Fjárfestingar í almenningssamgöngum hafa verið nokkuð miklar undanfarin ár, en svo virðist sem biðstöðvar séu ekki forgangsatriði. Sem dæmi voru, árið 2003, settar 400 milljónir í þróun svonefndra smartkortalausna til að nota sem greiðslulausn fyrir strætó. Það verkefni endaði með því að sú lausn var aldrei innleidd þrátt fyrir gífurlega kostnað sem fylgdi verkefninu.

 

Meirihluti stauranna í úthverfum borgarinnar

„Það er ekki þannig að það sé skipt upp eftir hverfum, það eru staurar jafnt um alla borg,“ segir Sigurborg. Þegar yfirlitskort yfir fjölda biðstaura er skoðað sést vel að meirihluti þeirra er í úthverfum borgarinnar. DV spurði Þorstein R. Hermannsson, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, hvort það væri ekki verið að mismuna notendum almenningssamgangna eftir búsetu innan borgarinnar með því að bjóða þeim ekki öllum sömu þjónustu. „Ég myndi gjarnan vilja að það væru strætóskýli alls staðar þar sem hægt er að koma þeim fyrir, það þarf bara meiri fjármuni. Það væri alveg hægt að veita meiri fjármunum í þetta. Það er náttúrlega ákvörðun sem borgarstjórn verður að taka.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Í gær

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Í gær

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Í gær

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn