fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
FókusKynning

Mikil og jákvæð breyting á lífi fólks eftir laseraugnaðgerð

Kynning
Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 24. ágúst 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fólki líður eins og það eigi heiminn og því kemur á óvart hvað það er ótrúlega mikil breyting að sjá skyndilega mjög vel og þurfa hvorki að nota gleraugu né linsur framar. Margir segja að þetta sé einn af þeim atburðum sem hafi haft mest áhrif á líf þess,“ segir Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir og sérfræðingur í hornhimnulækningum og sjónlagslækningum með laser. Jóhannes starfar hjá fyrirtækinu Augljós, sem staðsett er á 2. hæð í Glæsibæ, Álfheimum 74.

Jóhannes gekkst sjálfur undir svona aðgerð fyrir 13 árum eftir að hafa þá þegar framkvæmt margar laseraðgerðir á öðrum. Segir hann að það hafi jafnvel komið honum sjálfum í opna skjöldu hversu mikið lífsgæði hans jukust við þessa breytingu. Gefum Jóhannesi orðið um laseraðgerðir á augum:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þetta er aðgerð sem breytir miklu fyrir þá sem gangast undir hana. Um þriðjungur landsmanna er háður gleraugum eða linsum meira eða minna og þetta getur hjálpað þeim verulega. En þetta er þó ekki fyrir alla. Um það bil 20 prósent þeirra sem koma í forskoðun til okkar eru af einum eða öðrum ástæðum ekki í stakk búin fyrir svona aðgerð. Það getur verið vegna einhverra ágalla á augunum og svo þurfa hornhimnurnar að vera nægilega þykkar og eðlilega kúptar því hornhimnan er sá vefur framan á auganu sem er meðhöndlaður, við erum í rauninni að breyta ljósbrotshæfni augans, að breyta lögun fremri linsu augans, hornhimnunni (augasteinninn er aftari linsan), til að myndin komist á réttan stað í fókus á sjónhimnu aftast í auganu. Fyrir þessa aðgerð þurfa augun að vera heil og við pössum alltaf afar vel upp á að við séum ekki að taka óþarfa áhættu í aðgerðinni. Allar aðgerðir hafa ákveðna áhættu í för með sér en til að lágmarka hana þurfum við að skoða augun vel fyrir aðgerð.“

Í Augljós er þeirri reglu fylgt að augnlæknir fylgir sjúklingi alla leið, þ.e.a.s. Jóhannes forskoðar og sjónmælir sjálfur alla þá sjúklinga sem hann framkvæmir aðgerðir á, en hann telur mikilvægt að sami augnlæknir framkvæmi sjónmælingu, skoðun, aðgerð og eftirfylgni með sjúklingi í a.m.k. sex mánuði eftir aðgerð.

Afar góður árangur af laseraugnaðgerðum hjá Augljós

Daníel Alexandersson, læknanemi við læknadeild Háskóla Íslands, framkvæmdi í fyrra heildstæða rannsókn á árangri af augnaðgerðum með laser hjá Augljós. Niðurstaðan er að um og yfir 98 prósent þeirra sem fara í nærsýnisaðgerð fá 100 prósent sjón (6/6) án glers og eru því meira og minna lausir við gleraugu eða linsur. Er þetta afar gott hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið kynntar á málþingi og verða birtar á næstunni í Læknablaðinu.
Jóhannes segir að varðandi þau tæpu tvö prósent sem út af standa þá sé um að ræða sjúklinga sem fá sjónlagsbreytingar vegna breytinga í augasteininum, sem sé óviðkomandi laseraðgerðinni. Jafnframt getur augnþurrkur að lokinni aðgerð í einstaka tilviki tafið ferlið en reynt er að minnka áhrif hans eins og kostur er og oftast tekst það með ágætum. Nær allir sem gangast undir sjónlagsaðgerð með laser verða miklu minna háðir hjálpartækjum en áður og í mörgum tilvikum óháðir þeim með öllu. Margir þurfi þó lesgleraugu eftir fertugt en þó er nýlega farið að bjóða upp á nýja gerð laseraðgerða sem gerir fólk í mörgum tilvikum óháð lesgleraugum líka.

Varðandi áhættu við að fara í augnaðgerð með laser þá tekur Jóhannes skýrt fram að engin aðgerð sé algjörlega án fylgikvilla. „Öryggið hefur þó aukist stórum á undanförnum árum og með bættri tækni má nær útrýma fylgikvillum. Við kappkostum að bjóða upp á nýjustu tæki á þessu sviði og vorum m.a. fyrsta laseraðgerðastöðin til að bjóða upp á snertilausar laseraðgerðir.“ Jóhannes bendir á að fæstir hugsi til þess að notkun gleraugna og snertilinsa sé ekki fylgikvillalaus:

„Ég hef sjálfur fengið til mín fólk þar sem gleraugu hafa brotnað og augu skorist illa. Einnig hafa slæm hornhimnusár hlotist af snertilinsum og í slæmum tilvikum hafa þau valdið óbætanlegum sjónskaða.“

Uppruni aðferðarinnar – umfangslítil aðgerð

„Þessi aðgerð á rætur sínar í tölvubyltingunni sem varð í kringum 1980 þegar tölvurnar urðu almenningseign. Einum verkfræðingnum hjá IBM datt í hug hvort ekki mætti nota þennan laser sem var notaður til að útbúa rásir í kísilflögur í tölvurnar á mannslíkamann. Það voru gerðar rannsóknir á því og það kom í ljós að hornhimnan var ákjósanlegur vettvangur fyrir þessa tegund af laser vegna þess að hann virkar þannig að hann bókstaflega leysir upp á meðan aðrar tegundir af laser eru brennandi eða gefa höggbylgjur. Vefurinn sem lasernum er beint að hreinlega gufar upp. Hugmyndin er að móta hornhimnuna án þess að skemma hana og án þess að auka hitann í henni,“ útskýrir Jóhannes, en það kemur fólki oft á óvart hve aðgerðin sjálf er umfangslítil:

„Viðkomandi kemur í forskoðun og ef hann er kandídat í aðgerðina þá kemur hann að morgni dags og er gefin valíumtafla fyrir aðgerð til að róa hann því það er stressandi tilhugsun að fara í augnaðgerð. Ekki þarf að svæfa því mikilvægt er að viðkomandi geti fylgst með aðgerðinni en hann horfir í grænt ljós meðan á henni stendur. Aðgerðin tekur 10–15 mínútur fyrir bæði augu. Útbúinn er sérstakur flipi með hjör á hornhimnuna, hann settur til hliðar og hornhimnan síðan endurmótuð og flipinn settur aftur á. Sjúklingur fær dropadeyfingu en það eru engar sprautur eða neitt þess háttar. Sjúklingur finnur varla fyrir neinu. Tilhugsunin er stórt mál en aðgerðin sjálf ótrúlega lítið mál.“
Jóhannes segir að mælt sé með því að fólk leggi sig í tvo til þrjá tíma eftir aðgerðina. Fólk getur fundið fyrir dálitlum sviða í augunum en ekki verkjum. Að kvöldi aðgerðardags getur fólk horft á sjónvarp og sér bara býsna vel. Daginn eftir kemur það í skoðun.

„Fólk tekur því rólega daginn eftir aðgerðina en þar næsta dag getur það farið í vinnuna, farið að hlaupa, hjóla, í ræktina. Það má þó ekki nudda augun í viku – það er stærsta málið. Og ekki stunda vinnu þar sem er mikið ryk næstu daga á eftir. Bíða líka í eina viku með íþróttir sem kalla á bein átök við aðra, og maskarinn þarf líka að bíða í viku. Að öðru leyti er fólk ótrúlega fljótt að jafna sig.“

Nánari upplýsingar um laseraugnaðgerðir er að finna á heimasíðu Augljóss, augljos.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum