Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Vesturbyggðar, sagði í samtali við DV: „Þetta var ekki mikill eldur en þó nokkur reykur. Þegar eldurinn kom upp sprautuðu bátsmennirnir úr slökkvitækjum og lokuðu öllum lúgum. Síðan drápu þeir á vélunum og dráttarbátur sótti þá.“
Hver er staðan núna?
„Báturinn dró þá að höfninni og nú er unnið í því að slökkva eldinn, sem er einhvers staðar á milli þilja.“
Er vitað hvað gerðist?
„Nei, og við þurfum að slökkva til að sjá hvað gerðist. Það er líka óvíst hversu skemmdur báturinn er.“
Eldsvoðinn er ekki eina áfallið sem hefur dunið á Arnarlaxi undanfarið en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Bíldudal. Í febrúar brotnaði flotrör í eldiskví við Tálknafjörð og sökk kvíin með 500 tonnum af eldislaxi. Flytja þurfti þann fisk sem lifði af í aðra kví en hluti laxanna drapst. Í mars voru um 900 tonna afföll vegna vetrarsára, nýrnaveiki og flutnings milli kvía eins og Stundin hefur fjallað um. Tapaði fyrirtækið, sem er í meirihlutaeigu Norðmanna, nærri 805 milljónum króna.
Myndirnar tók Sigurður Steinþórsson ljósmyndari