fbpx
Sunnudagur 16.nóvember 2025
Eyjan

Veiklaður Sjálfstæðisflokkur, Samfylking í óskastöðu

Egill Helgason
Föstudaginn 23. nóvember 2007 20:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

39arikisstjornghhii.jpg

Það er komin upp óvænt staða í pólitíkinni. Allt í einu er eins og Samfyllkingin hafi öll ráð í höndum sér. Það eru snögg umskipti fyrir flokk sem virtist svo lánlaus lengi vel. En nú er eins og Samfylkingin sé komin í stöðuna sem Framsókn var í oft áður. Hún getur valið hvort hún starfar til hægri eða vinstri.

Sjálfstæðisflokkurinn á mikið undir því að hafa Samfylkinguna góða. Það er ekki víst að sjálfstæðismönnum þyki það þægileg staða. Eftir kosningarnar í vor valdi Geirsarmurinn í Sjálfstæðisflokknum að starfa með Samfylkingunni. Davíð Oddsson og félagar voru mótfallnir þessu – andúð þeirra á Ingibjörgu Sólrúnu er söm og áður. Þeir eru hálfvolgir í stuðningi sínum við ríkisstjórnina. Í útvarpsviðtali nýskeð talaði Davíð um forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann sem „þessa menn“.

Ef kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hefur veðjað á rangan hest gæti það komið sér illa fyrir höfunda stjórnarsamstarfsins innan flokksins, þá ekki síst formanninn og varaformanninn. Fyrir þau er mjög áríðandi að stjórninni takist vel upp og verði langlíf.

Bæði Framsókn og Vinstri græn eru í sárum eftir þessa stjórnarmyndun. Framsókn hugsar Sjálfstæðisflokknum þegjandi þörfina fyrir stjórnarslitin. Þess vegna er Björn Ingi hetja í augum framsóknarfólks; hann galt Sjálfstæðisflokknum rauðan belg fyrir gráan.

Í vor virðist Steingrímur J. hafa talið sig hafa fyrirheit frá Geir Haarde um ríkisstjórnarsamstarf. Enn eru sögusagnir um að þeir hafi verið búnir að ræðast við. Altént er víst að Steingrímur taldi sig illa svikinn þegar ríkisstjórnin var mynduð.

Báðir þessir flokkar væru tilbúnir að fara í stjórn með Samfylkingunni undir forystu Ingibjargar Sólrúnar með litlum fyrirvara. Kannski er aðeins tímaspursmál hvenær slík stjórn verður mynduð – í síðasta lagi eftir næstu kosningar.

Atburðirnir í borginni í haust gætu reynst afdrifaríkari en margan grunar. Sjálfstæðisflokkurinn sem yfirleitt virðist svo traustur og þéttur er í miklu uppnámi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson reynir að hanga í stöðu sinni sem oddviti borgarstjórnarflokksins; margir sjálfstæðismenn telja að Gísli Marteinn og Hanna Birna eigi sér ekki viðreisnar von í pólitíkinni. Davíð Oddsson virðist vera pólitískt virkur í Seðlabankanum, hann hefur róið undir; sumir rekja upphaf ólgunnar vegna REI beint til hans.

En planið var auðvitað aldrei að missa völdin í borginni. Það var ófyrirgefanlegt.

Allt vekur þetta spurningar um tök Geirs Haarde á flokknum. Flokksmenn eru að sönnu vanir fastari tökum frá tíma Davíðs. Maður heyrir marga þeirra tala ólundarlega um formann sinn þessa dagana. Kannski þarf Geir að fara að sýna meiri myndugleik innan flokksins?

Ein leiðin gæti verið að koma Davíð Oddsssyni úr embætti Seðlabankastjóra. Eða – ef hann leggur ekki í Davíð – að skipta Birni Bjarnasyni út úr ríkisstjórninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Rósa sat sinn síðasta bæjarráðsfund og lagði fram tillögu sem hún hefur gengið með í 3-4 ár

Rósa sat sinn síðasta bæjarráðsfund og lagði fram tillögu sem hún hefur gengið með í 3-4 ár
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar