Frétt eftir Þorbjörn Þórðarson sem birtist á Stöð 2 í gær varpar ljósi á viðskiptahætti íslenskra útrásarvíkinga. Myndin undirstrikar líka hversu fréttnæm hún er ljósmyndin þar sem bankastjóri Landsbankans sést í skemmtiferð ásamt Baugsmönnum. Einn lesandi síðunnar túlkar fréttina með þessum hætti:
— — —
Þeir keyptu Iceland keðjuna í Bretlandi með skuldsettri yfirtöku, fjármögnuðu það í gegnum íslensku bankana.
Pálmi Baugsmaðurinn í Fons átti um 29%.
Stuttu fyrir hrun stofna þeir félagið Stytta ehf. sem er í meirihluta eigu félags sem er skrásett á eyjunni Mön.
Þangað fluttu þeir skuldir Pálma upp á um 430 milljón sterlingspund eða sem jafngildir um 90 milljörðum.
Pálmi greiddi sem sagt aldrei sinn hluta. Arðgreiðslur frá Iceland undanfarin 3 ár hafa numið tug milljarða íslenskra króna.
Pálmi fær því að halda arðgreiðslunum en skilur 90 milljarða skuldir eftir í íslenska bankakerfinu en félagið Stytta ehf. tapaði 12 milljörðum 2008 og er með milljarða neikvætt eigið fé og einu eignirnar eru hlutabréfin í Iceland keðjunni.
Tap Landsbankans mun verða tugir milljarða króna.